Öskjuvatn íslaust með öllu

Öskjuvatn 27. mars. Enginn ís er nú á vatninu. Myndina …
Öskjuvatn 27. mars. Enginn ís er nú á vatninu. Myndina tók Hreinn Skagfjörð Pálsson. Af vef Vatnajökulsþjóðgarðs

Enginn ís er nú á Öskjuvatni sem þykir mjög óvenjulegt. Yfirleitt er það þakið ís á þessum árstíma. Tvennt gæti skýrt ísleysið: Aukin jarðhitavirkni eða snjóléttur vetur. Vísindamenn hallast að því fyrrnefnda.

„Venjulega er Öskuvatn ísilagt fram á sumar, til júní eða júlí,“ segir Björn Oddsson, jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem flaug í vél Gæslunnar yfir svæðið í dag. Flugþjónn hjá Flugfélagi Íslands, Hreinn Skagfjörð Pálsson, náði myndum í lok mars af íslausu vatninu og vakti það athygli vísindamanna. Myndirnar eru birtar á vef Vatnajökulsþjóðgarðs.

„Þarna er eitthvað óvenjulegt í gangi, annaðhvort veðurfarslegt fyrirbrigði eða að það er aukinn jarðhiti í vatninu,“ segir Björn. Í dag var svo farið með flugvél Gæslunnar, TF-SIF yfir svæðið en hún er m.a. búin hitamyndavélum. Var strandlengjan og vatnið skannað í leit að áberandi hitastreymi.

„Við sáum ekkert á yfirborði og það var ekki að sjá að það væri aukinn jarðhiti fyrir utan vatnið. Þannig að ástæður fyrir þessu gætu verið af tvennum toga; aukinn varmastraumur frá jarðhitasvæðinu undir vatninu eða þá að skýringin liggi í snjólitlum vetri og sterkum suðvestanvindum.“

Björn bendir í þessu samhengi á að Mývatn, sem liggur nokkuð lægra en Öskjuvatn en er á svipuðu svæði, sé nú ísilagt. Því sé líklegra að jarðhiti sé að verki. „En það er ómögulegt að segja nema að komast á svæðið og gera mælingar,“ segir Björn.

- En er von á eldgosi?

„Það eru engar beinar vísbendingar um það,“ segir Björn. „En við þetta tækifæri munu vísindamenn opna gömul gagnasöfn og kanna málið.“ Hann segir að skoða þurfi m.a. gögn um skjálftavirkni á svæðinu en við grófa skoðun slíkra gagna hefur ekkert óvenjulegt komið í ljós. Hann bendir á að þegar síðast gaus í Öskju, árið 1961, hafi aukinn jarðhiti verið á svæðinu. Því sé ástæða til að fylgjast vel með nú.

„En það er alveg á hreinu að það er óvenjulegt að vatnið sé íslaust á þessum tíma,“ segir Björn.

Hreinn Skagfjörð tók myndir sínar 18. og 27. mars og segir Björn að enn minni ís sé á vatninu nú. Það sé nú algjörlega íslaust. Þekkt jarðhitasvæði er í suðvesturhluta vatnsins.

Björn bendir á að mikinn jarðhita þurfi til að hita upp Öskjuvatn og bræða snjó og ís að vetri, vatnið er eitt það dýpsta á Íslandi, um 220 m djúpt.

Öskjuvatn 18. mars. Enginn ís er nú á vatninu. Myndina …
Öskjuvatn 18. mars. Enginn ís er nú á vatninu. Myndina tók Hreinn Skagfjörð Pálsson. Af vef Vatnajökulsþjóðgarðs
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert