8,1% kaus í íbúakosningum

Kjörsókn í rafrænum íbúakosningum í Reykjavík sem fram fóru dagana 29. mars til 3. apríl var 8,1%. Er það heldur meiri kjörsókn en var í svipuðum kosningum árið 2009. Í kosningunum nú voru í fyrsta sinn notuð rafræn auðkenni  við kosningar á Íslandi í samstarfi við Ísland.is. Kjósendur auðkenndu sig með veflykli ríkisskattstjóra eða með rafrænum skilríkjum á debetkortum.

Kosið var um smærri nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni í hverfum borgarinnar og gátu kjósendur kosið í einu hverfi að eigin vali.

Alls auðkenndu 7.617 kjósendur sig í kosningunum en gild atkvæði voru 6.857. Þetta þýðir að 760 kjósendur auðkenndu sig án þess að velja verkefni eða ljúka kosningunni í hinum rafræna kjörklefa.

Flestir kusu í Grafarholti

Kjörsókn var nokkuð mismunandi eftir hverfum. Íbúar í Grafarholti sem auðkenndu sig voru 9,8% af þeim sem voru á kjörskrá en 9,5% íbúa í Hlíðum og Vesturbæ. Íbúar á Kjalarnesi sem auðkenndu sig voru hins vegar ekki nema 5,3% og í Breiðholti var kjörsóknin 6,3%. Kjörsókn í öðrum hverfum var um og yfir 8%. Kynjahlutfall var  jafnt í kosningunum.

Hægt var greina aldur þeirra sem tóku þátt í kosningunum. Kjósendur á aldrinum 31-60 ára voru langvirkastir. Allir sem orðnir voru 16 ára um síðustu áramót gátu greitt atkvæði.

Kosningarnar þykja hafa heppnast vel og fer þátttaka í rafrænum kosningum á vegum Reykjavíkurborgar stigvaxandi. Árið 2009 voru rafrænar kosningar um verkefni í hverfum haldnar í fyrsta sinn en þá voru kennitölur notaðar sem auðkenni. Um þúsund fleiri kjósendur tóku þátt í kosningunum núna, segir í frétt frá Reykjavíkurborg.

Listar yfir þau verkefni sem flest atkvæði hlutu í hverfum borgarinnar hafa verið birtir á vef Reykjavíkurborgar. Valið stóð um 180 verkefni í öllum hverfum en af þeim voru 124 valin. Öll eru verkefnin til þess fallin að bæta og fegra hverfi Reykjavíkur enda fóru kosningarnar fram undir kjörorðunum Kjósum betri hverfi.

Kosningin er bindandi og verða verkefnin sem kosin voru framkvæmd í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert