Íbúafundur fyrir lok mánaðar

Stefnt er að því að halda íbúafund á Álftanesi fyrir lok mánaðar. Þar verður íbúum sveitarfélagsins gerð grein fyrir stöðu fjárhagsmála og einnig hvernig sameiningaviðræður við Garðabæ standa. Að sögn forseta bæjarstjórnar hafa viðræður gengið vel.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Álftaness fór fulltrúi Á-lista fram á það, að bæjarstjórn upplýsti íbúa Álftaness sem fyrst um stöðu mála í sameiningarviðræðunum.

Snorri Finnlaugsson, forseti bæjarstjórnar, sagði í samtali við mbl.is að fulltrúi Á-lista hefði verið upplýstur um það, að ávallt stæði til að halda íbúafund um stöðu mála. Stefnt væri að því að það yrði gert fyrir lok mánaðar.

Hann sagði að það yrði gert þegar ársreikningur 2011 lægi fyrir og þá yrði vonandi einnig búið að klára síðasta samninginn í tengslum við skuldamál sveitarfélagsins, en hann er við Fasteign vegna sundlaugarinnar.

Spurður út í sameiningarviðræðurnar við Garðabæ segir Snorri að þær gangi mjög vel og góður andi sé í þeim. Eina ástæðan fyrir því að þeim sé ekki lokið er sú að ekki er búið að klára samninga við Fasteign en það sé forsenda þess að yfirlit yfir skuldaleiðréttingu sveitarfélagsins liggi fyrir. „Um leið og það er búið er okkur ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun um það hvort kosið verði um sameiningu eða ekki. Og mér heyrist að menn séu almennt á því að fara í íbúakosningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert