„Það er ESB sem ræður för“

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, veltir fyrir sér á bloggsíðu sinni hvort makríl-deila muni hrinda ESB-umsókn út af borðinu eða hvort íslensk stjórnvöld „muni bogna undan kröfum ESB“.

Jón segir að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hafi lýst yfir áhyggjum sínum af því að Evrópusambandið tengi saman framgang aðildarviðræðna og makríl-deiluna, í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku.

Þá skrifar Jón:

„Aðalsamningamaður Íslands  í makríl hefur þó verið rekinn úr því starfi að kröfu ESB sinna í stjórnsýslunni hérlendis sem og  í Brussel. -  Hann þótti rökstyðja of vel kröfur Íslendinga!!. –Tómas H Heiðar  starfaði sem formaður samninganefndar á ábyrgð sjávarútvegsráðherra og ég,  sem ráðherra treysti honum mjög vel.  Ég vissi hins vegar hvaða hug ESB sinnar báru til hans í þessum efnum. 

  - Færður til annarra mikilvægari starfa  sagði utanríkisráðherra!  Að ósk hvers ? Hvað er mikilvægara en góðir samningar fyrir Íslendinga í makríl?“

Jón skrifar einnig að aukin harka hafi færst í yfirlýsingar og samþykktir Evrópusambandsins í makríl-deilunni við Íslendinga og Færeyinga.

Og ESB slær tóninn: lausn makríldeilunnar verður að byggja á „raunhæfum tillögum um hlutfallslega skiptingu veiðanna, byggða á sögulegum rétti strandríkjanna til veiða“.

Að sjálfsögðu getum við ekki fallist á þessa einhliða túlkun ESB á rétti okkar til veiðanna.

Þótt makríllinn komi nú og í gríðarlegu magni  inn í íslenska fiskveiðilögsögu og éti býsn á það að þeirra mati ekki að skapa neinn sérstakan rétt.“

Jón segir að ljóst sé að ekki verði samið um framtíðarskiptingu makrílveiða nema Íslendingar gefi verulega eftir og spyr í kjölfarið hvort ESB-umsóknin sé þá stopp.

Þótt hörðustu  ESB sinnarnir í ríkisstjórn og á Alþingi séu jafnvel reiðubúnir að gefa eftir og ganga langt á hagsmuni Íslendinga til að þóknast kröfum ESB í makrílnum er óvíst hvort þeir hafi til þess meirihluta á Alþingi.

Þjóðinni var lofað því að ESB umsóknin yrði útkljáð innan þessa kjörtímabils.

Nú þegar er ljóst að ófrávíkjanlegar kröfur ESB á mörgum sviðum, ekki aðeins í makríl ganga mun lengra en samninganefndin hefur umboð til að semja um.  Það er ESB sem ræður för en ekki Íslendingar.

Heimasíða Jóns Bjarnasonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina