Kvótinn gæti farið í 200 þúsund tonn

Ljósmynd/Jón Kristjánsson

Nýjar stofnmælingar á þorski benda til þess að hægt verði að auka kvótann í 200.000 tonn á næsta fiskveiðiári. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, í samtali við RÚV. Á þessu fiskveiðiári er heimilt að veiða 177 þúsund tonn af þorski.

Samkvæmt aflareglunni sem stjórnvöld styðjast við þegar ákvörðun er tekin um kvóta má árleg veiði vera 20% af viðmiðunarstofni. Þegar kvótinn var ákveðinn í fyrra var viðmiðunarstofninn 969 þúsund tonn. Við ákvörðun aflamarks var tekið tillit til aflamarks ársins á undan til helmings á móti 20% af viðmiðunarstofni. Þetta er svokölluð sveiflujöfnun. Þannig varð til heildaraflamark á þorski upp á 177 þúsund tonn, samkvæmt ákvörðun ráðherra. Miðað við nýjustu mælingu er talið að þorskstofninn sé núna um 1080 tonn.

Steingrímur sagði í samtali við RÚV að mælingar Hafrannsóknastofnunar ættu að gera útgerðum auðveldara að taka á sig þær breytingar sem fylgja nýju kvótafrumvarpi.

Hafrannsóknastofnun kynnti í morgun niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum sem fram fór í mars. Ekki hefur mælst meira af þorski á Íslandsmiðum síðan 1985. Stofnvísitala þorsks á Íslandsmiðum hefur hækkað fimm ár í röð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert