Sæstrengur gæti stórbætt lífskjör

Hörður, Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar á ársfundinum í dag.
Hörður, Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar á ársfundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lagning sæstrengs til Evrópu gæti stórbætt lífskjör á Íslandi. Þetta sagði Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins. Mikilvægt væri að skapa sátt um þetta verkefni því það væri ekki einkamál orkufyrirtækjanna á Íslandi.

Lagning sæstrengs er eitt helsta mál ársfundar. Rafstrengurinn þyrfti að vera rúmlega 1600 kílómetrar að lengd, en aldrei hefur svo langur rafstrengur verið lagður neðansjávar.

Hörður sagði að markmið sem ESB hefði sett sér í orkumálum til ársins 2020 snérust ekki bara um að draga úr brennslu jarðefniseldsneytis til að minnka mengun. Þetta snérist ekki síður um orkuöryggi og þjóðaröryggi. Jarðefnaeldsneyti væri ekki óendanleg auðlind og þjóðirnar gerðu sér grein fyrir að til að byggja upp öflugt atvinnulíf þyrftu þær að eiga kost á nægu og öruggu rafmagni.

Hörður sagði að með lagningu sæstrengs væri hægt að nýta orku í kerfinu betur. Einnig væri hægt að nýta betur jarðvarmaorku. Nýtingu væri yfirleitt hætt þegar orkan færi niður fyrir 220 gráður en það væri hægt að nýta hana niður í 150 gráður. Framleiðsla á slíku rafmagni væri ekki hagkvæm í dag en yrði það hugsanlega ef hægt væri að selja orkuna til Evrópu. Hann nefndi einnig vindorku sem vænlegan kost. Vindorka væri dýrari en þeir orkukostir sem við væru að nýta í dag, en hana mætti flytja út.

Hörður varpaði upp þeirri spurningu hvaða áhrif lagning sæstrengs hefði á raforkuverð til heimilanna. Þau væru um margt óljós, en hann sagði að þætti að vera hægt að koma í veg fyrir að hækkun á verði raforku til fyrirtækja leiddi einnig til hærra verðs til heimilanna. Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að sæstrengur myndi fjölga störfum á Íslandi en ekki fækka þeim eins og sumir hefðu óttast.

Skapaði Íslandi meira alþjóðlegt vægi

Hörður sagði að lagning sæstrengs gæti skapað ný tækifæri fyrir þekkingariðnað á Íslandi. Sæstrengur skapaði einnig stóraukin tækifæri til arðgreiðslna frá Landsvirkjun. Hann sagði líka að sæstengur gæti skapað Íslandi meira alþjóðlegt vægi. Vægi Íslands hefði minnkað eftir að varnarliðið fór, en orkusala til Evrópu gæti aukið það aftur. Sæstrengur væri stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar stæðu frammi fyrir.

Hörður sagði nauðsynlegt í þessu samhengi að velta fyrir sér fjármögnun Landsvirkjunar til framtíðar. Hann varpaði fram þeirri hugmynd að ríkisvaldið setti meira eigi fé í Landsvirkjun en jafnframt yrði ríkisábyrgð á lánum Landsvirkjunar afnumin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert