Hefði kannski átt að ræða málið

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að upplýsingarnar um að framkvæmdastjórn ESB myndi eiga aðild að málrekstri ESA vegna Iceasave hafi verið inni á opinberum vefsíðum og Össur gerði ráð fyrir því að þingmenn fylgdust með málinu og að sérstakar tengingar væru við ráðherra í gegn um málsvarnarteymið sem ættu að gera þeim ljóst hvernig málin stæðu. Össur segir jafnframt að hugsanlega hefði hann átt að ræða málið við utanríkismálanefnd og að hann beri ábyrgð á að segja forsætisráðherra frá gangi mála.

Össur telur ekki að vinnulagið eigi að koma niður á trausti fólks til fólksins sem sér um að reka mál Íslands. Niðurstaða málsvarnarteymisins í svari sínu hafi verið verið samhljóma og breið samstaða hefði náðst um það.   

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að ekki ríki djúpstæður ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar vegna kröfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðild að Icesave-málinu. Gildi það sérstaklega um þær athugasemdir sem ríkisstjórnin mun senda til framkvæmdastjórnarinnar í dag. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, greindi frá því í morgunþætti Rásar 2 í morgun að hún hefði frétt af kröfu framkvæmdastjórnar ESB í fréttum í fyrradag.  Eins og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag vissi utanríkismálanefnd Alþingis ekki um kröfuna heldur fyrr en fjallað var um málið í fjölmiðlum í fyrradag 11. apríl en utanríkisráðuneytinu mun hafa verið tilkynnt um kröfu framkvæmdastjórnarinnar með bréfi 27. mars síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert