Hreindýr að drepast úr hor

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Nokkur hreindýr á Austurlandi hafa fallið úr hor í vetur. Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarða, segir þetta renna stoðum undir að beitarþolsrannsókn sé mikilvæg.

Á síðasta ári voru sagðar fréttir um lélegar girðingar á Mýrum í Hornafirði og að hreindýr væru að festast í þeim og drepast. Síðastliðið haust gaf bæjarráð Hornafjarðar út almenna áskorun til jarðareiganda í Hornafirði um að gæta að girðingum þannig að velferð hreindýra stafaði ekki ógn af.

Bæjarstjóri segir að girðingar séu almennt í góðu lagi og þar á  meðal á Flatey á Mýrum.  Sveitarfélaginu barst nýverið áskorun frá bændum á Mýrum að framkvæma rannsókn á beitarþoli svæða þar sem hreindýr halda sig.  Niðurstöður slíkrar rannsóknar geta í framhaldinu myndað grunn að veiðistjórnun á svæðinu.  Bændur hafa komið að máli við bæjarstjóra á undanförnum vikum og mánuðum og lýst yfir áhyggjum af vaxandi ágangi hreindýra á afgirt lönd sín og auknum fjölda þeirra.  Þá hafa fundist nokkur dýr sem fallið hafa úr hor sem rennir stoðum undir að beitarþolsrannsókn sé mikilvæg.

mbl.is

Bloggað um fréttina