Ölvaður maður gekk berserksgang

mbl.is/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Karlmaður á tvítugsaldri gekk berserksgang við Seljavallalaug undir Eyjafjöllum í morgun. Maðurinn, sem er góðkunningi lögreglu, braut rúður í bifreið sem stóð skammt frá lauginni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli er bifreiðin mjög mikið skemmd og dælduð eftir athæfið.

Fjölmörg vitni voru að atvikinu en maðurinn var ofurölvi þegar lögreglu bar að. Skömmu eftir komu lögreglu á vettvang var maðurinn handtekinn án mótspyrnu.

Engin tengsl eru á milli þess handtekna og eiganda bílsins.

mbl.is