Myndi deyja á fyrstu 30 sekúndunum

Í Hungurleikunum berjast unglingar til síðasta manns. Þótt sumum hugnist ekki þessi söguþráður hafa bækurnar eftir Suzanne Collins - og nú kvikmyndin -  farið sigurför um heiminn. Fyrsta bókin í þríleiknum kom út árið 2008 og hefur síðan verið þýdd á a.m.k. 26 tungumál og útgáfurétturinn seldur til 38 landa.

Hungurleikarnir komu út í íslenskri þýðingu í haust og fór ekki mikið fyrir henni framan af en rómur hennar virðist hafa spurst hratt út því það sem af er ári 2012 er hún meðal söluhæstu bóka á landinu.  Ákveðið hefur verið að flýta þýðingu næstu bókar á íslensku og er hún væntanleg í maí.

Hvað er svona heillandi við Hungurleikana?

Þegar kvikmyndin var svo frumsýnd í lok mars sprungu vinsældir Hungurleikanna út og nýtt æði varð til. Kvikmyndin sló frumsýningarmet í Bandaríkjunum og var sú mest sótta fjórar vikur í röð. Hér á landi hefur myndin einnig verið vinsæl og fór beint á toppinn þegar hún var frumsýnd. Þessar gríðarlegu vinsældir kvikmyndarinnar komu nokkuð á óvart en þær má rekja til aðdáendahóps bókanna. En hvað er svona heillandi við Hungurleikana?

Ungir aðdáendur bókaflokksins og kvikmyndarinnar sem Mbl Sjónvarp ræddi við nefna ýmislegt: Sagan er grípandi, ótrúlega spennandi og skemmtileg og margt sem má lesa milli línanna. „Ég las fyrstu bókina bara á einum degi, því það er svo auðvelt að festast inni í þeim og bara klára þær,“ sagði Svava Hildur Bjarnadóttir, sem lesið hefur allar bækurnar. Sagan er vissulega æsispennandi en það sem heillar marga lesendur ekki síður en bardagarnir sjálfir eru hin siðferðislegu og félagslegu átök sem krauma undir niðri og eru leidd upp á yfirborðið eftir því sem aðalpersónan Katniss þroskast og áttar sig betur á hlutverki sínu í alræðisríkinu.

Þvert á staðalímyndir kynjanna

Eitt af því sem er áhugavert við vinsældir Hungurleikanna er að bækurnar virðast höfða jafnt til stráka sem stelpna, þótt aðalpersónan sé kvenkyns. Þetta ættu auðvitað ekki að teljast tíðindi, en í ljósi reynslunnar er það þó svo. Frægt er t.d. orðið þegar útgefendur Harry Potter-bókanna skikkuðu höfundinn til að titla sig J.K. Rowling  vegna þess að þeir töldu víst að ungir strákar myndu ekki lesa bækur sem skrifaðar væru af konu, jafnvel þótt aðalpersónan væri strákur.

Oft hefur viljað brenna við í fantasíum og vísindaskáldsögum að höfundar nýti sér ekki til fulls það frelsi sem þeir þrátt fyrir allt hafa til að skapa heim ólíkan okkar, þegar kemur að staðalmyndum kynjanna. Lítil takmörk hafa t.d. verið á því hvað hægt er að ímynda sér í sköpun furðuskepna og tækjabúnaðar en margir höfundar virðast ekki hafa ímyndunarafl til að skapa framtíðarveröld þar sem kynjahlutverkin eru ekki ennþá eins og þau voru á 6. áratugnum.

Í framtíðarríki Hungurleikanna, Panem, virðist lítill greinarmunur gerður á hlutverkum og eðli kynjanna. Í umdæmi Katniss vinna bæði konur og karlar í kolanámunum. Í Capitol er ofuráhersla lögð á útlit, jafnt karla sem kvenna og gangast bæði kynin undir öfgafullar fegrunaraðgerðir og skreyta sig frá toppi til táar. Stúlkur og drengir berjast hvert gegn öðru í Hungurleikunum án þess að aflsmunur kynjanna komi til tals. Í eitt skipti er ýjað að vændi í bókunum, sá sem selur líkama sinn er karlkyns og viðskiptavinir hans virðast vera af báðum kynjum. Valdasjúkir einræðisherrar geta bæði verið konur og karlar í Panem. 

Svo er það auðvitað aðalpersónan, Katniss, sem er með sterkari kvenpersónum sem fram hafa komið í unglingabókum og þótt víðar væri leitað. Flestir lesendur virðast finna í henni eftirsóknarverða eiginleika. Hún er óhemju sjálfstæð og snjöll, með ríka réttlætiskennd og auðvitað frábær veiðimaður. Hún er samt fjarri því að vera fullkomin og t.d. virðist tilfinningagreind hennar fremur takmörkuð, því hún á oft erfitt með að setja sig í fótspor annarra og skilja líðan þeirra sem standa henni næst. En Katniss er heillandi aðalpersóna með alla sína galla því hún neitar að fylgja yfirvaldi í blindni og heldur mannlegri reisn í ömurlegum kringumstæðum með því að læra að vera sjálfri sér trú. 

Fornsögur og vísindaskáldskapur í bland

Ýmsir hafa bent á líkindi Hungurleikanna við aðrar vísindaskáldsögur, s.s. The Running Man eftir Stephen King og japönsku hryllingssöguna Battle Royale. Þríleikurinn um Hungurleikana er vissulega sneisafullur af menningarlegum tilvísunum og rætur sögunnar má rekja mun lengra aftur en ofantalin verk, því segja má að í Hungurleikunum blandist saman fornsögur og vísindaskáldskapur.

Collins sjálf fer ekki leynt með hvert hún sótti sér innblástur. Sem barn var hún mikill aðdáandi grískra og rómverskra goðsagna og hugmyndina að Hungurleikunum sótti hún  í goðsögnina um grísku hetjuna Þeseif. Þar segir frá angist íbúa Aþenu sem neyddir voru til að senda reglulega sjö pilta og sjö stúlkur til Krítar, þar sem þeim var varpað í völundarhús og þau étin af skrímslinu Mínótárusi, sem var hálfur maður og hálft naut. Þessu lauk ekki fyrr en hetjan Þeseifur bauð sig fram til að fara og drap Mínótárus.

Hliðstæðan við Rómaveldi

Persóna Katniss er því m.a. byggð á Þeseifi, en ekki síður á Spartakusi, sem leiddi hóp skylmingarþræla til uppreisnar gegn Rómarveldi í kringum árið 70 f.Kr.  „Ég hafði ekki áhuga á því að láta söguna gerast í völundarhúsi, svo ég ákvað að skrifa í raun endurnýjaða útgáfu af skylmingarþrælum Rómaveldis,“ útskýrði Collins í viðtali við vefinn School Library Journal stuttu eftir útgáfu fyrstu bókarinnar 2008. Hliðstæðan við Róm til forna er sú augljósasta í Hungurleikunum, enda fer Collins ekki leynt með tilvísanirnar.

Framtíðarríkið Panem er í raun endurspeglun á Rómverska heimsveldinu og skipulagt með sama hætti. Höfuðstaðurinn heitir Capitol, líkt og ein af hæðunum sjö sem Rómarborg var reist á. Þar þrífst ofalin yfirstéttin en auður hennar er með öllu háður auðlindum og framleiðslu umdæmanna 12, skattlanda þar sem íbúunum er haldið niðri af hörku. Árlega þurfa umdæmin að senda Capitol framlög, eina stúlku og pilt sem berjast til dauða líkt og skylmingarþrælarnir forðum. Á frummálinu kallast framlögin „tributes“ en „tributa“ er einmitt latneska orðið yfir greiðslurnar sem rómversku skattlöndin þurftu að greiða til heimsveldisins.

Collins fer alla leið með þessa samlíkingu, t.d. bera flestir íbúar Capitol og nánustu umdæma þess latnesk nöfn, s.s. Seneca, Caesar og Cinna, Portia, Flavius, Brutus og Cato. Sjálft ríkið heitir Panem, sem er latneska orðið fyrir „brauð“ og endurómar þar rómversku hugmyndafræðina um „brauð og leika“ (Panem et circenses) til að halda lýðnum ánægðum.

Sagan endurtekur sig

Það sem er óþægilegt en jafnframt ögrandi við Hungurleikana er hvað söguheimurinn er þrátt fyrir allt kunnuglegur. Collins deilir á nútímann: Á misskiptingu valds og auðs, á firringu afþreyingariðnaðarins, raunveruleikasjónvarp og stríðsrekstur. Hún notar myndmál úr Víetnamstríðinu, fyrsta stríði sögunnar sem var sjónvarpað nánast í beinni, og þar sem faðir hennar barðist.

Með því að nota Rómarveldi sem myndmál í vísindaskáldsögu vill Collins eflaust minna lesandann á það að sagan á það til að endurtaka sig, ef við gætum okkar ekki á að læra af reynslunni. Það er margt ljótt í Hungurleikunum, þar sem kúgun, ofbeldi og morð eru daglegt brauð. En ekkert af því sem Collins skrifar um er í eðli sínu nýtt, það hefur allt gerst áður í mannkynssögunni í einni eða annarri mynd. Og fyrst það hefur gerst einu sinni, hvað er því til fyrirstöðu að það gerist aftur?

Lesandinn getur ekki annað en spurt sig hvernig hann eða hún myndi bregðast við í sömu kringumstæðum. Hversu langt er hægt að ganga í því að gera sársauka annarra að afþreyingarefni? Hversu fjarlægur þarf heimur fórnarlambanna að vera okkur til þess að við getum horft á dauða og þjáningu í sjónvarpi yfir kvöldmatnum án þess að það snerti okkur sérstaklega? Hvaða siðferði gildir í aðstæðum þar sem um líf og dauða er að tefla? Gætirðu drepið aðra manneskju ef þú þyrftir þess til að lifa af?

Krakkarnir sem Mbl.is ræddi við um bækurnar og myndina í myndskeiðinu hér að ofan voru reyndar öll sammála um eitt: Þau gætu ekki tekið þátt í Hungurleikunum og beitt þeim brellum sem þarf til að sigra. „Ég yrði dauður á fyrstu 30 sekúndunum,“ sagði Styrmir Hjalti Haraldsson og svipaða sögu sögðu hin. Þau myndu frekar láta lífið en að þurfa að drepa aðra. 

Jennifer Lawrence í hlutverki Katniss Everdeen í fyrstu mynd Hungurleikanna.
Jennifer Lawrence í hlutverki Katniss Everdeen í fyrstu mynd Hungurleikanna. Ljósmynd/Lionsgate
Suzanne Collins er höfundur Hungurleikanna.
Suzanne Collins er höfundur Hungurleikanna. Afp
Fyrsta bók Hungurleikanna kom út í íslenskri þýðingu haustið 2011.
Fyrsta bók Hungurleikanna kom út í íslenskri þýðingu haustið 2011.
Stanley Tucci fer með hlutverk spjallþáttastjórnandans Caesar Flickerman, sem líkt …
Stanley Tucci fer með hlutverk spjallþáttastjórnandans Caesar Flickerman, sem líkt og aðrir íbúar Kapítol gengst undir ýmsar fegrunaraðgerðir.
Í Hungurleikunum er líka að finna klassískn ástarþríhyrning, milli Peeta, …
Í Hungurleikunum er líka að finna klassískn ástarþríhyrning, milli Peeta, Katniss og Gale.
Dauðastríð skylmingarþræla í Colosseum voru ígildi raunveruleikasjónvarp Rómarveldis til forna.
Dauðastríð skylmingarþræla í Colosseum voru ígildi raunveruleikasjónvarp Rómarveldis til forna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert