Minnihlutinn vildi sýkna Geir

Fimmtán dómarar sitja í Landsdómi.
Fimmtán dómarar sitja í Landsdómi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Minnihluti Landsdóms telur að þegar höfð sé í huga tilurð og forsaga 17. gr. stjórnarskrárinnar sé ekki hægt að slá því föstu að með ákvæðinu hafi staðið til að sérhvert stjórnarmálefni sem talist gat mikilvægt yrði lagt fyrir ríkisstjórn.

Minnihluta Landsdóms mynda Ástríður Grímsdóttir, Benedikt Bogason, Fannar Jónasson, Garðar Gíslason, Linda Rós Michaelsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir.

Í Landsdómi sitja 15 dómarar, en þar af eru fimm hæstaréttardómarar, tveir aðrir löglærðir og átta eru kosnir af Alþingi. Af þessum sex sem mynda minnihlutann, er einn hæstaréttardómari, Garðar Gíslason og einn annar löglærður, Benedikt Bogason, en hinir fjórir voru kosnir af Alþingi.

Í séráliti minnihlutans er líkt og í áliti meirihlutans komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri Geir af fyrstu þremur ákæruliðunum. Sérálitið byggir hins vegar á talsvert öðrum forsendum en í meirihlutaálitinu.

Í sérálitinu er komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri Geir líka af fjórða ákærulið sem fjallar um að Geir hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að ræða stöðu bankakerfisins á ríkisstjórnarfundum með formlegum hætti.

Í sérálitinu segir að núverandi 17. gr. stjórnarskrárinnar hafi staðið óbreytt að efni til frá árinu 1920 með þeirri breytingu einni að forseti kom í stað konungs með lýðveldisstjórnarskránni árið 1944. „Í öðru lagi að allt frá upphafi hafi verið talið skylt að halda ráðherrafundi um mál sem leggja skyldi fyrir ríkisráð og þau mál sem einstaka ráðherrar óskuðu að bera þar upp. Í þriðja lagi að engar aðrar beinar skyldur, nema um mætingu ráðherra, hafi verið orðaðar varðandi fundina, hvorki við setningu ákvæðisins árið 1920 né í ritum fræðimanna fyrr og síðar, og í fjórða lagi að megintilgangur ráðherrafunda sé að skapa ráðherrum vettvang fyrir það pólitíska samráð sem nauðsynlegt sé að hafa um stjórn landsins og stefnumál á hverjum tíma, en ekki taka eiginlegar stjórnvaldsákvarðanir þar sem ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Af þessu leiðir að ráðherrarnir hljóta að taka þar upp öll þau mál er þeir telja sig þurfa pólitískan stuðning við eða að minnsta kosti nauðsynlegt að ráðgast við aðra ráðherra um.“

Í sérálitinu segir að það verði ekki séð að því hafi verið hreyft í samhengi við ráðherraábyrgð að það eitt gæti varðað forsætisráðherra refsiábyrgð að halda ekki ráðherrafund um mikilvæg málefni, þótt þess væri gætt að halda fundi um mál sem færu fyrir ríkisráð og um það sem aðrir ráðherrar óskuðu að bera upp á fundum ríkisstjórnar.

„Við mat á því hvort ákærði hafi bakað sér þá refsiábyrgð sem honum er gefin að sök í 2. hluta ákæru ber að hafa í huga þá rótgrónu lögskýringarreglu á sviði refsiréttar að skýra beri þröngt refsilög þegar vafi leikur á því hvort tiltekið sakarefni falli undir refsiákvæði eða hvor skýringarkostur af tveimur, sem til greina koma, eigi betur við. Þannig ber að virða ákærða í hag vafa um það hvort refsiregla taki til ákveðinnar háttsemi,“ segir í sérálitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert