Skattgreiðendur verði ekki blekktir

Pétur H. Blöndal, alþingismaður.
Pétur H. Blöndal, alþingismaður. mbl.is/Ómar

„Ég vil að skattgreiðandinn viti hvað bíði hans,“ sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í kvöld um heimild til fjármögnunar Vaðlaheiðarganga en fyrsta umræða um málið fer nú fram í þinginu. Fjármálaráðherra, Oddný G. Harðardóttir, mælti fyrir frumvarpinu fyrr í dag og hafa þingmenn rætt það síðan.

Umrædd heimild gengur út á að stjórnvöld geti lánað þá fjármuni sem þarf til þess að byggja göngin, um 8,7 milljarða króna, sem síðan verði greiddir til baka á komandi árum í gegnum veggjöld. Deilt hefur verið mjög um það hvort göngin geti staðið undir sér með þeim hætti. Þá hefur verið gagnrýnt harðlega að ekki geti talist um einkaframkvæmd að ræða ef ríkið þarf að fjármagna hana og taka á sig þá áhættu sem því fylgi.

Göngin voru tekin út af samgönguáætlun á sínum tíma svo flýta mætti fyrir byggingu þeirra gegn því að um einkaframkvæmd yrði að ræða sem stæði undir sér.

Pétur sagðist alls ekkert hafa á móti Vaðlaheiðargöngum sem slíkum ef sýnt væri fram á að þau gætu staðið undir sér. Hann væri hins vegar á móti því að farið væri út í þá framkvæmd þannig að skattgreiðendur væru blekktir.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, gagnrýndi frumvarpið harðlega í ræðustól Alþingis og sagði meðal annars ljóst að bygging Vaðlaheiðar myndi koma niður á fjármögun annarra brýnni samgönguverkefna. Þá gagnrýndi hún einnig þá áhættu sem ríkið tæki á sig með því að fjármagna framkvæmdina.

mbl.is