Líkur taldar á hvalveiðum í sumar

Frá hvalveiðum.
Frá hvalveiðum. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hvalur hf. er farinn að ráða fólk til sumarstarfa í sumar og margt bendir til þess að hvalveiðar hefjist að nýju í sumar.

Þetta kemur fram á vefsíðu Skessuhorns. 

Þar segir að stefnt sé að þriggja mánaða vertíð og að væntanlega verið hvalveiðiskipin Hvalur 8 og Hvalur 9 sendir til veiða í júní. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, hafi verið í Japan fyrir skömmu að ræða við kaupendur hvalafurða þar.

„Í Hvalstöðinni í Hvalfirði er allt klárt fyrir væntanlega vertíð í sumar eins og reyndar var fyrir síðasta sumar einnig, þegar ekkert varð af veiðum. Hvalveiðararnar og vinnslan hefur skapað hátt á annað hundrað störf þegar tekin eru saman störf á hvalveiðibátunum, í Hvalstöðinni og við vinnslu sem m.a. hefur farið fram á Akranesi. Fyrir marga hefur vertíðin þannig reynst uppgrip,“ segir í frétt Skessuhorns.

Hvalur hefur heimild til að veiða 150-170 langreyðar en á vertíðunum í hittiðfyrra og árið þar áður var sá kvóti ekki fylltur.

Frétt Skessuhorns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert