Gagnrýna rammaáætlun og sæstreng

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Fram kemur í ályktun Náttúruverndarþings 2012 að fagnað sé því að allmörg svæði hafi samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu að rammaáætlun verið sett í verndarflokk. Tímabært hafi verið að friðlýsa þessi svæði fyrir löngu samkvæmt því sem segir í ályktuninni. Tekið er eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um tillögu að rammaáætlun sem send var ráðherrum iðnaðar og umhverfis í nóvember á síðasta ári. Þá segir að nokkur svæði, meðal annars tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum, hafi réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk.

„Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga,“ segir í ályktuninni.

Vilja málið til umhverfis- og samgöngunefndar

Hins vegar eru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir við rammaáætlunina. Tillögur um Reykjanesskaga eru meðal annars gagnrýndar harðlega þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr séu sett í nýtingarflokk. „Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast.“

Bent er á að jarðfræði Reykjanesskagans sé einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í nágrenni höfuðborgarinnar sé hátt. Er þess krafist að Alþingi endurskoði þennan þátt rammaáætlunarinnar. Óvissa ríki ennfremur „um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á.“

„Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar,“ segir aukinheldur í ályktuninni og Náttúruverndarþing beini því til Alþingis að forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögunnar verði færð frá atvinnuveganefnd þingsins til umhverfis- og samgöngunefndar.

Saka Landsvirkjun um einhliða umfjöllun

Í ályktun Náttúruverndarþings er ennfremur meðal annars varað sterklega „við einhliða kynningu Landsvirkjunar og fleiri aðila á kostum þess að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlandseyja eða meginlands Evrópu. Þagað er þunnu hljóði um gífurleg umhverfisáhrif sem yrðu hérlendis af slíkri framkvæmd með stórauknum þrýstingi á byggingu virkjana og óhjákvæmilegri lagningu öflugra háspennulína til viðbótar þeim sem fyrir eru, auk mögulegra hækkana á raforkuverði til almennings.“

Er þess ennfremur krafist að upplýsingar um líkleg umhverfisáhrif af framkvæmdinni séu settar í forgang við frekari skoðun málsins og að niðurstöður í þeim efnum liggi fyrir áður en farið sé út í kostnað vegna athugunar á öðrum þáttum málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert