„Forgangsröðun stjórnarflokkanna er galin“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mörg mál bíða í þinginu en forgangsröðun stjórnarflokkanna er galin. Forsætisráðherra stappar niður fótum og heimtar að málið sitt, breytingar á stjórnarráðinu, fari í gegn,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni í dag. Hann segir það mál hins vegar algerlega óþarft og að óforsvaranlegt sé af ráðherranum að leggja önnur mál til hliðar eins og mál sem hafa með bætta stöðu heimilanna að gera.

„Ríkisstjórnin virðist líta á alþingi sem afgreiðslustofnun sem ekki eigi að þvælast fyrir þeim málum sem hún kemur með. Hlutverk Alþingis er að setja lög og vanda til við lagasetninguna,“ segir Gunnar og gagnrýnir að tvö mál, frumvörp um breytingar á fiskveiðistjórnun og rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafi komið allt of seint til umfjöllunar í þinginu. Stjórnarandstaðan hafi ítrekað kvartað yfir þeim vinnubrögðum en á það hafi ekki verið hlustað.

Gunnar segir ennfremur að Alþingi sé að verða eins og Ríkissjónvarpið, það sé mikið um endursýningar. „Nú er bara að bíða til kosninga og halda áfram að lágmarka það tjón sem ríkisstjórnin veldur íslensku samfélagi,“ segir hann að lokum.

Heimasíða Gunnars Braga Sveinssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert