Ísland segi sig úr Nató

Merki VG
Merki VG

Ungliðar í Vinstri grænum skora á ríkisstjórn VG og Samfylkingar að ganga frá úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu, Nató. Í stað þess að verja um fjórðungi úr milljarði króna í aðild að bandalaginu ár hvert skuli stjórnvöld beina þeim fjármunum til þróunarmála.

Það er Snærós Sindradóttir, ritstýra Illgresis, málgagns ungliða í VG, sem kallar eftir þessu fyrir hönd hinna yngri félagsmanna flokksins í leiðara í nýjasta hefti ritsins.

Orðrétt skrifar Snærós:

„Það er óþarfi að tíunda þau morð eða þjáningar sem saklausir borgarar hafa orðið fyrir af hendi Nató í gegnum árin. Það nægir að segja að reglur Nató eru skýrar: Ef ég sé glitta í þína tönn þá mæti ég með skoltinn í skottið á þér ... Ef við gætum verið svolítið meðvituð og gagnrýnin í hálftíma væri hægt að lyfta grettistaki í friðarmálum. Segjum okkur úr Nató, hættum þessu rugli og eyðum 248,3 milljónum króna í að bæta stöðu kvenna í þróunarlöndum.“

Með kröfunni er tekið undir kröfu þingmanna flokksins en eins og mbl.is hefur greint frá er enginn ágreiningur innan þingflokks Vinstri grænna um að Íslandi beri að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu.

Kom þetta fram í samtali mbl.is við Einar Ólafsson, skáld og rithöfund, en hann lagði fram ályktun á flokksráðsfundi VG í fyrra þar sem loftárásir NATO í Líbíu voru fordæmdar.

Þá hefur Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Nató.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert