Huang vill samning til 99 ára

Huang Nubo vill byggja upp ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum.
Huang Nubo vill byggja upp ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum. Ernir Eyjólfsson

Kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo segir í viðtali við dagblaðið China Daily, að hann sé nálægt því að ná samningum um umfangsmikla fjárfestingu í ferðaþjónustu á Íslandi. Hann segist vonast eftir að leigusamningurinn um Grímsstaði á Fjöllum verði til 99 ára.

Eins og fram hefur komið í fréttum í vikunni er nú rætt um að Huang geri leigusamning um Grímstaði á Fjöllum til 40 ára í stað þess að kaupa jörðina.

„Samningarnir eru við það að klárast. Ég á von á því að niðurstaðan verði ekki fjarri því sem ég vonaðist eftir,“ segir Huang í viðtalinu. Hann reikni með að fjárfesta fyrir um 200 milljónir dollara eða um 24 milljarða króna á Íslandi.

Í fréttinni segir að málið hafi verið rætt í ríkisstjórn Íslands í dag. Huang segist gera sér vonir um að samningar verði undirritaðir um miðjan júní.

Huang segist hafa beðið rólegur eftir niðurstöðu málsins. Hann segir að Íslendingar hafi ítrekað rætt við sig eftir að innanríkisráðherra hafnaði erindi hans um að kaupa jörðina.

„Íslenskir embættismenn og íbúar landsins vita að fjárfesting mín skiptir miklu máli og þeir vita að þetta mál felur í sér skilaboð um afstöðu til erlendra fjárfestinga. Þeir vinna hörðum höndum að því að þessar áætlanir geti orðið að veruleika,“ segir Huang.

Huang segist vonast eftir að leigusamningurinn sem unnið er að verði til 99 ára. „Líkurnar á að þessu verði hafnað eru ekki miklar því þetta mál kemur ekkert inn á verksvið innanríkisráðuneytisins.“

Huang segist vonast eftir hægt verði að taka á móti gestum á Grímsstöðum á Fjöllum eftir fimm ár ef samningar takist.

mbl.is