„Langar í heitan pott“

Elvar Kristinn og Sara Lind sigruðu í Hæfileikakeppni Íslands.
Elvar Kristinn og Sara Lind sigruðu í Hæfileikakeppni Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Dansparið Elvar Kristinn og Sara Lind sigraði í Hæfileikakeppni Íslands sem sýnd var á SkjáEinum í kvöld. Þau fengju eina milljón króna í verðlaunafé.

Elvar og Sara eru aðeins 10 ára gömul. Eftir að úrslitin lágu fyrir voru þau spurð hvað þau ætluðu að gera við verðlaunaféð. „Annaðhvort keppnisferð eða heitan pott,“ svaraði Elvar Kristinn en Sara sagðist hins vegar ætla að nota peningana í keppnisferðir.

Hæfileikakeppnin hófst í febrúar, en almenningur gat sent inn umsóknir á mbl.is. Tæplega 700 myndbönd bárust. Valið á atriðum fór þannig fram að eftir að myndböndin höfðu verið birt á mbl.is valdi almenningur fjögur atriði áfram í þættina á SkjáEinum og dómnefnd, skipuð Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, Þorvaldi Davíð Kristjánssyni og Önnu Svövu Knútsdóttur, sjötíu og sex. Eftir hvern þátt völdu áhorfendur síðan fjögur atriði af tuttugu áfram í úrslitin í netkosningu og undir lokin fleytti dómnefndin tveimur atriðum áfram sem ekki höfðu hlotið náð fyrir augum almennings.

Elvar Kristinn og Sara Lind hafa æft dans frá unga aldri. Þau hafa keppt víða erlendis og unnið margoft til verðlauna. Í viðtali við Monitor sögðu Elvar Kristinn og Sara Lind að þau stefndu hátt í dansheiminum og ætluðu sér heimsmeistaratitil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert