„Verður þetta allt svona?“

Borteigur við Trölladyngju er yfir 3.000 fermetrar. Holuna reyndist ekki …
Borteigur við Trölladyngju er yfir 3.000 fermetrar. Holuna reyndist ekki hægt að virkja. Morgunblaðið/Kristinn

Borteigur eða borplan fyrir eina borholu er oft yfir 3.000 fermetrar að stærð. Nú eru uppi áætlanir um að bora margar nýjar holur á Reykjanesskaganum. Áhugamaður um náttúru og sögu skagans segir hægt að hafa teigana mun minni en HS Orka segir að þeir séu hafðir eins litlir og hægt sé. 

„Þetta snýst ekki um hvort það eigi að virkja eða ekki heldur að það verði gert þannig að menn geti verið sáttir við framkvæmdirnar,“ segir Ómar Smári Ármannsson um fyrirhugaðar jarðhitaboranir á Reykjanesskaganum.

Hann segir augljóst að við nýlegar og eldri virkjunarframkvæmdir á Suðurnesjum og víðar hafi ekki verið vandað nægilega vel til verka, hægt hefði verið að hafa borstæðin eða borteigana undir jarðborana mun minni, leggja vegi og pípur og reisa virkjanamannvirki þannig að minna beri á þeim í landslaginu.


Ómar Smári er vel þekktur fyrir áhuga sinn á náttúru og minjum Reykjanesskagans, einkum í tengslum við ferðahópinn Ferli en einnig vegna þess að hann er aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið fór í vikunni með Ómari um þrjú svæði á Suðurnesjum; að Trölladyngju og Sogum, Eldvörpum og Krýsuvík. Á öllum þessum svæðum, og raunar víðar á Suðurnesjum, stendur til að virkja jarðhita og svæðin raðast öll í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.


Við Trölladyngju eru tvær nýlegar tilraunaborholur HS orku. Önnur þeirra og sú nýrri (frá 2006) er uppi í hlíð, við gönguleiðina að Sogunum sem er vinsælt útivistarsvæði og rómað fyrir náttúrufegurð. Þar var gert borplan sem Ómar og blaðamaður mældu að væri 45x70 metrar að stærð eða rúmlega 3.000 fermetrar. Það sem upp úr stendur af borholunni sjálfri – en hún reyndist reyndar ónothæf – er ekki nema 2,5x5 metrar.
Ómar Smári fylgdist með framkvæmdunum á sínum tíma og hann segir ljóst að planið hefði mátt vera mun minna, í það minnsta helmingi minna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Hægt hefði verið að leggja plan undir borinn en síðan flytja aðföng að honum eftir því sem þurfti. Rafstöðina hefði mátt hafa annars staðar og leggja raflínu meðfram veginum. Pípur hefði mátt hafa á neðra borplaninu og flytja þær upp eftir og varahlutir og vinnuskúra hefði sömuleiðis mátt hafa þar. Þess í stað hefði jarðýta gert ljótt sár í hlíðina og síðan hefði hundruðum tonna af möl verið ekið á staðinn til að útbúa óþarflega stórt borplan.

Hafa yrði í huga að jafnvel þótt borholan hefði virkað væri endingartími jarðhitavirkjana ekki nema 50-60 ár. Illgerlegt eða ómögulegt væri að fjarlægja ummerki um holuna að þeim tíma liðnum. Þá minnir hann á að rökin með virkjunum séu gjarnan þau að þær skapi atvinnu. „En það fá ekki færri vinnu við að virkja þótt borstæðið sé lítið,“ segir hann.

Sést yfir fornminjar

Ómar Smári tekur fram að hann sé ekki andvígur því að auðlindirnar séu nýttar. Vinnubrögðin við borholurnar við Trölladyngju og víðar séu á hinn bóginn þannig að þau hljóti að draga úr stuðningi við virkjanir. „Hér sjá menn bara eyðileggingu og hugsa: Verður þetta allt svona?“


Hann bendir einnig á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að borstæðinu hafi ekki farið yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni. Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis þá og þegar hann var lagður. Leyfið fékkst eftir á og þá hjá viðeigandi sveitarfélagi.

Sjaldan eru allar tóftir skráðar. Það gildir t.d. um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan, þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð.“

Þriðja svæðið sem farið var um var Eldvörp en þar vill HS Orka bæta við fimm borteigum, þar af tveimur sem eru á skilgreindu iðnaðarsvæði. Einn borteigur er þar fyrir, ríflega 3.100 fermetrar auk um 1.200 fermetra svæðis meðfram veginum sem var raskað. Ómar Smári segir að í Eldvörpunum verði að fara sérstaklega varlega enda sé svæðið ríkt af fegurð og sögu en um leið afar viðkvæmt. Ástundi menn sömu vinnubrögð og hingað til lítist honum hins vegar ekki á blikuna.

Ætla að fara varlega

Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, segir að við Eldvörp standi til að fara eins varlega og framast sé unnt. Til standi að beita skáborun og bora í um 1.000-1.200 metra frá teigunum, miðað við lóðlínu, sem sé það mesta sem hægt sé að gera í jarðlögum sem þessum.


Það vekur nokkra athygli að einn af nýju teigunum í Eldvörpum er nánast við hliðina á þeim eina sem fyrir er. Ásbjörn segir að ekki sé hægt að nota þann gamla þar sem staðsetningin hans sé með þeim hætti að erfitt sé að stækka hann. Ef hann yrði stækkaður yrði farið yfir svæði sem menn vilji vernda.


En hvað þá með stærð borteiganna? Ásbjörn segir að undanfarin ár og áratugi hafi menn reynt að taka sem minnst svæði undir borteiga. „Það er fyrst og fremst verktakinn sem ákvarðar hvað hann þarf til að hann geti unnið verkið sómasamlega. Það hefur allt kapp verið lagt á að hafa umfangið eins lítið og kostur er.“


Nokkuð frá Eldvörpunum er annar og mun stærri borteigur, um 6.000 fermetrar að stærð, samkvæmt lauslegri mælingu. Á honum eru tvær niðurdælingarholur fyrir Svartsengi og Ásbjörn segir að það hafi verið sú stærð sem þurfti fyrir tvær holur.
Þá tekur Ásbjörn fram að HS Orka vinni náið með Grindavíkurbæ að undirbúningi framkvæmda við Eldvörp. Svæðið sé hverfisverndað og ekki verði hróflað við gígunum, enda séu þeir friðaðir. Teigarnir verði að mestu við núverandi veg og pípur og annað lagðar meðfram honum. Meðal þess sem hefur verið rætt um að gera er að leggja hraunhellur/hraungrýti yfir þá borteiga sem ekki nýtast, þ.e. ef holurnar gefa ekki af sér orku. Þá megi nánast afmá ummerki um rask, líkt og hafi verið gert við hús Bláa lónsins. Slíkt sé ekki hægt að gera við vinnsluholur því þær þurfi að hreinsa reglulega með bortæki.


Deiliskipulagstillaga að framkvæmdum í Eldvörpum er nú til meðferðar hjá Grindavíkurbæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert