Huang segir samkomulag í höfn

Huang Nubo.
Huang Nubo.

Haft er eftir kínverska fjárfestinum Huang Nubo í kínverskum fréttamiðli að samningur hans um að leigja Grímsstaði á Fjöllum sé í höfn eftir ríkisstjórnarfund hér á landi á föstudag.

Á vef China Daily segir að nefnd á vegum íslensku fjármála- og iðnaðarráðuneytanna hafi mælt með því að samningurinn yrði samþykktur svo Huang gæti leigt landið í stað þess að kaupa það.

Innanríkisráðherra hafnaði beiðni Huangs um kaup á landinu í nóvember á síðasta ári.

Huang segist hafa fengið þessar góðu fréttir um miðnætti á föstudag frá samstarfsaðila sínum á Íslandi. Hann segir í samtali við China Daily að hann muni skrifa undir samninginn um miðjan júní en að enn sé eftir að semja um ákveðna þætti.

Huang segir í viðtalinu að hann hafi komið sögu sinni á framfæri í tengslum við málið, en hann hafi snúið frá því að vera opinber starfsmaður og orðið sjálfstæður viðskiptamaður.

Hann segir vestræn ríki lítið vita um þessi umskipti sem hann og fleiri hafi gengið í gegnum á undanförnum áratugum í Kína. „Mín saga hjálpar þeim að skilja Kína betur og hvað er að gerast hérna.“

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.
mbl.is

Bloggað um fréttina