Rannsókn á hnífsstunguárás á lokastigi

Lögreglan var með mikinn viðbúnað í Lágmúlanum í kjölfar hnífsstunguárásarinnar …
Lögreglan var með mikinn viðbúnað í Lágmúlanum í kjölfar hnífsstunguárásarinnar þann 5. mars sl. mbl.is

Rannsókn á hnífsstunguárás á lögmannsstofu í Lágmúla þann 5. mars sl. er á lokastigi, að sögn Björgvins Björgvinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra. Vonast er til að málið verði sent til ákærusviðs lögreglunnar í næstu viku en þaðan fer það til ríkissaksóknara.

Björgvin segir að verið sé að bíða eftir niðurstöðum DNA-rannsóknar sem var gerð í Svíþjóð og niðurstöðum úr geðrannsókn sem Guðgeiri Guðmundssyni, sem játaði á sig árásina, var gert að undirgangast. „Við vonumst til að geta lokið þessu í næstu viku og sent málið til ákærusviðs en það er háð því að við fáum þessi gögn,“ segir Björgvin.

Karlmaður á sextugsaldri hlaut mörg stungusár í árásinni en samstarfsfélagi hans, sem reyndi að skakka leikinn, var stunginn tvisvar í lærið. Manninum var haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans í nokkrar vikur og var um tíma í lífshættu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert