Ryðji vegi í samráði við Vegagerðina

Frá Kerlingarfjöllum. Ferðaþjónustufyrirtæki lét ryðja snjó af Kjalvegi til að …
Frá Kerlingarfjöllum. Ferðaþjónustufyrirtæki lét ryðja snjó af Kjalvegi til að flýta fyrir opnun. mbl.is

Vegagerðin er ekki mótfallin því að einkaaðilar ryðji snjó af fjallvegum en eðlilegt er að það sé gert í samráði við hana, segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Ferðaþjónustufyrirtæki lét ryðja snjó af Kjalvegi til að flýta fyrir opnun og vissi svæðisstjóri Vegagerðarinnar ekki af því fyrr en hann sá fjallað um málið í fréttum.

„Við erum að glíma við niðurskurð og minnkandi fjárveitingar og teljum að hin almenna umferð verði að vera í forgangi. Þá er minna til skiptanna fyrir hálendisvegina, þótt við myndum náttúrlega vilja getað þjónustað þá betur,“ segir G. Pétur. „Ferðaþjónustan er að reyna að lengja tímabilið og fá meira út úr þessu.“

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Páll Gíslason, rekstrarstjóri og einn eigenda Fannborgar við Kerlingarfjöll, að það séu talsverðir hagsmunir fólgnir í því fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að ryðja snjó af vegum. Vegna þess hve seint vegurinn um Kjöl var opnaður í fyrra, 23. júní, hafi fyrirtækin á svæðinu orðið fyrir miklum skaða. Stefnt er að því að opna hann nú einhvern tímann á bilinu 3.-5. júní, vegna framtaks einkaaðila.

G. Pétur segir Vegagerðina hafa rutt inn að Hvítá í síðustu viku. Málið snúist frekar um fjárskort heldur en að það sé ekki tímabært að ryðja vegina. Þeir hafi því í sjálfu sér lítið út á snjómokstur ferðaþjónustufyrirtækja að setja. „Það mætti fara í þessa skafla fyrr en við höfum verið að gera en á þeim vegum sem Vegagerðin á að halda við ætti það að gerast í samráði við okkur.“

Það er hinsvegar ekki sama hvort fyrirtækin séu að ryðja að vori eða að vetri til. „Við höfum ekki sett okkur upp á móti þessu þegar verið er að flýta fyrir voropnun en við höfum ekki viljað að menn séu að þessu á veturna þegar það á eftir að snjóa meira. Þá getur það gert illt verra.“

mbl.is