Skoða þurfi skuldastöðu sveitarfélaganna

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nú er það svo að samkvæmt þeim lögum sem ég studdist við þá segir einnig að leiga á landi lengur en í þrjú ár skuli einnig koma til umfjöllunar í innanríkisráðuneyti en við höfum síðan einnig lög sem að veita undanþágu frá þessum ákvæðum og það er á forsendum þeirra laga sem málið er nú til skoðunar.“

Þetta kom fram í máli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, á Alþingi í morgun um hugmyndir sveitarstjórnarmála á norðausturlandi um að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum og leigja hana næstu áratugi til kínverska fjárfestisins Huangs Nubo en hann var þar að bregðast við fyrirspurn frá Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar, sem lýsti miklum áhyggjum af málinu. Eins og kunnugt hafnaði innanríkisráðuneytið því á sínum tíma að veita Huang undanþágu frá lögum til þess að kaupa jörðina.

Ögmundur lagði áherslu á að hann kæmi að málinu bæði sem þingmaður og ráðherra. Sem þingmaður tæki hann þátt í stefnumótandi umræðum um málið á Alþingi en sem ráðherra væri hann bundinn af þeim lögum sem hefðu með málið að gera. Sagði hann að meðal þess sem horfa þyrfti til í athugun innanríkisráðuneytisins á málinu væri skuldastaða þeirra sveitarfélaga sem kæmu að því.

Hann benti hins vegar á að enginn samningur um kaup eða leigu í tengslum við Grímsstaði á Fjöllum hefði enn verið kynntur í ríkisstjórn. „Og það eru náttúrulega næstu skref sem þarf að horfa til. Þau hafa ekki verið stigin. En ég tek undir með háttvirtum þingmanni það almenna sjónarmið að við eigum að vera afar varfærin í þessum efnum og þar hef ég meira en litlar efasemdir sjálfur eins og fram hefur komið á opinberum vettvangi.“

Þór sagði ennfremur að kínversk stjórnvöld væru með þessu að moka hundruðum milljóna í sjóði íslenskra sveitarfélaga og spurði Ögmund hvort ekki yrði með hraði að setja lög til þess að koma í veg fyrir slíkt og ennfremur hvort hugsanlega yrði ekki að takmarka völd íslenskra sveitarstjórnarmanna. Spurði hann innanríkisráðherra hvort hann myndi beita sér fyrir breytingum á sveitarstjórnarlögum í þessum efnum.

„Nú er það svo að engum milljónum, hvað þá fremur hundruðum milljóna, hefur verið mokað í sveitarsjóði. Það hefur ekkert slíkt verið gert af hálfu Kínverja. Við höfum hins vegar spurnir af því að samningar séu í bígerð og við viljum sjá hvað þar hangir á spýtunni,“ sagði Ögmundur en sagðist hins vegar taka undir það að verja þyrfti íslenskar auðlindir gagnvart innlendu eða erlendu fjármagni.

„Við eigum þar að vera á varðbergi og við eigum að sjálfsögðu að taka til endurskoðunar löggjöf sem að snýr að eignarhaldi á landi. Við eigum að sjá til þess að það haldist hvort sem er eignarhaldið eða afnotaréttur á landi eða auðlindum innan okkar samfélags. Það tel ég vera grundvallaratriði og undir það sjónarmið tek ég,“ sagði Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina