Smáhlaup í Múlakvísl

Skjálftavirkni í síðustu viku.
Skjálftavirkni í síðustu viku. Mynd/Veðurstofa Íslands

Mun minni jarðskjálftavirkni var á landinu í síðustu viku en þeirri þar á undan. Mesta virknin þessa vikuna var fyrir norðan land, á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og í Öxarfirði þar sem urðu smáar hrinur. Stærsti skjálfti vikunnar var rúm tvö stig á Tröllaskaga. Þá varð smáhlaup í Múlakvísl. Þetta kemur fram á vefsvæði Veðurstofu Íslands.

Lítil virkni var við Húsmúla á Hellisheiði en þar mældust örfáir skjálftar, ólíkt því sem var í síðustu viku þegar rúmlega 200 skjálftar mældust. Rólegt var á Suðurlandsundirlendi en nokkrir smáskjálftar mældust aðfaranótt þriðjudags í Landsveit, norðan Galtalækjar, á svipuðum slóðum og smáhrinan sem varð í síðustu viku og á sama dýpi, 5 - 6 kílómetrum.

Nokkrir skjálftar mældust við Kleifarvatn og Núpshlíðarháls, allir innan við tvö stig og á um níu kílómetra dýpi. Auk þess mældust nokkrir smáskjálftar við Brennisteinsfjöll og tveir á Reykjaneshrygg.

Rúmlega 130 skjálftar á Norðurlandi

Rúmlega 130 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi. Þar af voru 60 á Skjálfanda milli Flateyjar og Húsavíkur og er það nokkuð meiri virkni á því svæði en í síðustu viku. Skjálftarnir röðuðust í þrjár þyrpingar í smáhrinum, sú fyrsta hófst á mánudagskvöld um það bil 18 kílómetrum norðvestan Húsavíkur og stóð hún fram yfir miðnætti. Um 20 skjálftar mældust, sá stærsti um tvö stig og flestir á 9-10 kílómetra dýpi. Á miðvikudagskvöld hófst önnur smáhrina um 10 kílómetrum nær Húsavík og stóð fram eftir nóttu. Árla föstudagsmorguns hófst síðasta hrinan og var sú um sex kílómetra frá Húsavík. Rúmlega 40 skjálftar mældust í Öxarfirði um helmingur þeirra í smáskjálftahrinu sem hófst á sunnudagskvöld. 

Afstæðar staðsetningar á skjálftum vestan við Húsavík sýna tvær skjálftaþyrpingar sem líklega mynda sameiginlegt brotaplan með stefnu N102°A. Brotaplanið hallar aðeins til norðurs eða 85°. Við staðsetningarnar er notað svonefnt SIL-hraðalíkan og með því líkani er vestari þyrpingin á um 7 km dýpi en sú austari á um 8 km dýpi. Brotlausnir sýna hægrihandar sniðgengishreyfingu eins og sjá má áskjálftakorti. Hafsbotnsgögnin á myndinni eru úr fjölgeislamælingum Hafrannsóknarstofnunar, ÍSOR og Jarðvísindastofnunar Háskólans.

Rólegt við Grímsvötn

Rúmlega 20 skjálftar mældust í Vatnajökli, allir smáir. Rólegt var í nágrenni Grímsvatna. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 25 skjálftar, mesta virknin var rétt suðvestan við Herðubreið, líkt og í síðustu viku. Einn skjálfti mældist undir norðurbarmi Öskju og var hann innan við eitt stig, á um þriggja kílómetra dýpi. Stærsti skjálftinn á svæðinu var skammt norðaustan við Herðubreið, tvö stig. 

Tuttugu skjálftar í öskju Kötlu

Minni virkni var í Mýrdalsjökli þessa viku miðað við vikuna á undan, rúmlega 20 skjálftar, sjö innan öskjunnar og annað eins við Goðabungu en þar varð stærsti skjálftinn, 1,3 stig. Aðrir mældust við Hafursárjökul og Jökulshöfuð í suðaustanverðum jöklinum. Aukinn órói sást á jarðskjálftamælinum á Láguhvolum sem er í nágrenni Múlakvíslar og hélst það í hendur við aukna rafleiðni sem mældist á leiðnimælinum við Léreftshöfuð í Múlakvísl. Þessa varð fyrst vart rétt undir mánaðamótin og þann 28. apríl hófst smáhlaup í Múlakvísl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert