Eitt af brýnustu stefnumálum ríkisstjórnarinnar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Forsætisráðherra segir að Alþingi taki fyrir í næstu viku eitt af brýnustu stefnumálum ríkisstjórnarinnar en það séu breytingar á stjórnarskránni. „Það er von mín og ríkisstjórnarinnar allrar að takast megi að bera megintillögur stjórnlagaþings undir þjóðina í haust í almennri atkvæðagreiðslu.“ Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir í grein sem birt er á vef forsætisráðuneytisins.

„Þetta er mikilsvert mál og á rætur í heitstrengingum margra stjórnmálaflokka um áratugi, meðal annars um að innleiða á Íslandi bætt siðferði og aukið lýðræði. Það væri sannast sagna með ólíkindum ef minnihluti þingsins héldi áfram málþófi til þess að koma í veg fyrir framgang þessa máls í trássi við vilja meirihluta þingsins og þriggja fjórðu hluta kjósenda,“ segir Jóhanna.

Breytingar muni marka tímamót

Þá segir hún það fagnaðarefni að meirihluti Alþingis skuli hafa samþykkt þingsályktunartillögu sína um breytingar á skipan ráðuneyta á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar.

„Ég er þess fullviss að breytingarnar á Stjórnarráðinu munu marka tímamót og gera stjórnsýsluna sterkari, faglegri og betri, ekki síst á sviði umhverfis-, auðlinda-, atvinnu- og efnahagsmála. Þrátt fyrir hrakspár stjórnarandstöðunnar gefast hér mörg tækifæri til bættra samskipta framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Síðast en ekki síst geta breytingarnar einfaldað samskipti Stjórnarráðsins og samfélagsins alls og gert þau markvissari,“ segir forsætisráðherra í greininni.

Virði rétt lýðræðislega kjörinna valdhafa

Varðandi áform stjórnvalda um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi og hækkun veiðigjalds segir hún að það sé sanngjarnt að almannasjóðir taki til sín hluta af þeirri auknu framlegð sem sjávarútvegurinn hafi fengið í sinn hlut með gengishruninu.

„Ég veit að útgerðarmenn eru þessu ekki allskostar ósammála og að þeir vita jafn vel og aðrir að þeir hafa ekki sjálfdæmi um það frekar en aðrir hvað greinin greiðir í almannasjóði til að halda úti velferðarkerfi og grafa jarðgöng til samgöngubóta svo nokkuð sé nefnt. Ég er þess fullviss að þeir muni virða rétt lýðræðislega kjörinna valdhafa til þess að taka endanlegar ákvarðanir um auðlindirnar,“ segir Jóhanna.

Loks segir hún að fullt tilefni sé til að fagna á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar. Síðasta fjórðung kjörtímabilsins muni hún og Alþingi nýta til áframhaldandi lífskjarasóknar og aðgerða í skuldamálum heimilanna, fjölgunar starfa, endurskoðunar stjórnarskrárinnar, breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu, framgangs rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúruauðlinda og fjölda annarra þjóðþrifamála í þágu almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert