Annasöm nótt hjá lögreglu

Erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Meðal þeirra mála sem komu til kasta lögreglu voru hnífstungur, ölvunarakstur og eldur var borinn að strætóskýli.

Rétt eftir klukkan sjö í gærkvöldi var tilkynnt líkamsárás á Laugavegi þar sem maður var stunginn með hnífi. Sá slasaði var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar en árásarmannsins er enn leitað.

Um tíuleytið var bifreið stöðvuð á Reykjanesbraut við Breiðholtsbraut. Ökumaður bifreiðarinnar var grunaður um ölvun við akstur og var látinn laus að lokinni  upplýsinga- og sýnatöku. Um svipað leyti var tilkynnt um bifreið á Ylströndinni Nauthólsvík þar sem ökumaður lék sér að því að spóla á bifreiðinni. Rætt var við ökumann og málið afgreitt á vettvangi. 

Skar starfsmann í lófa

Maður ógnaði fólki með hnífi á veitingahúsi við Laugaveg um klukkan hálfellefu í gærkvöldi. Starfsmaður var skorinn í lófa eftir að hafa afvopnað manninn, sem flúði af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar. Hann gistir nú fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.  

Þá var tilkynnt um þjófnað á gistihúsi við Laugaveg þar sem tölvu var stolið frá erlendum ferðamanni. Maður handtekinn grunaður um þjófnaðinn. Hann var í annarlegu ástandi og verður vistaður í fangageymslu uns hann verður viðræðuhæfur.

Hafnaði tíu metra frá vegi

Skömmu fyrir klukkan tólf var tilkynnt bifhjólaslys á mótum Eiðsgranda og Öldugranda. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en ekki er vitað um meiðsli hans. Um svipað leyti var bifreið stöðvuð á Reykjavegi við Vesturlandsveg. Ökumaður er grunaður um ölvun við akstur. 

Árekstur varð á mótum Fálkabakka og Höfðabakka rétt fyrir klukkan eitt í nótt og voru ökumenn og farþegar fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Draga þurfti bifreiðarnar á brott.

Bíll ók út af Vífilsstaðavegi við Hraunholt á öðrum tímanum í nótt. Bíllinn hafnaði um það bil tíu metra frá veginum, ofan á steini og þurfti að draga hann á brott.

Klukkan þrjú var bifreið stöðvuð á Sæbraut við Snorrabraut. Ökumaður hennar er grunaður um ölvun við akstur. Skömmu síðar var önnur bifreið stöðvuð á sama stað, ökumaður hennar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var einnig kærður fyrir vörslu fíkniefna. 

Klukkan hálffimm var tilkynnt líkamsárás við veitingastaðinn B5 í Bankastræti. Þar hafði stúlka verið skorin í andliti og var hún flutt á sjúkrahús.

Réðst á tvær stúlkur

Skömmu eftir klukkan fimm var maður handtekinn í Grófinni eftir að hann sló tvær stúlkur í andlitið og varð valdur að eignaspjöllum er hann hrinti annarri stúlkunni á rúðu, sem brotnaði. Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu lögreglu þar til hægt verður að ræða við hann. 

Á sjötta tímanum var bifreið stöðvuð á Barónsstíg. Ökumaður hennar er grunaður um ölvun við akstur og var látinn laus að lokinni upplýsinga-  og sýnatöku.

Þá var mikill erill vegna útkalla tengdra hávaða og ölvun, tilkynnt um eld í strætóskýli í Hafnarfirði um miðnættið og unglingateiti sem fór úr böndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert