Frávikshegðun líklegri hjá vanræktum börnum

Afbrotavarnaráðin í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru talsvert umfangsmikil, …
Afbrotavarnaráðin í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru talsvert umfangsmikil, en ekki er starfrækt sérstakt afbrotavarnaráð í Grænlandi eða á Íslandi. Ljósmynd/Lögreglan

Árlegur fundur afbrotavarnaráða Norðurlanda var haldinn á Nesjavöllum dagana 9.-11. maí sl. og hélt embætti ríkislögreglustjóra fundinn að þessu sinni. Meðal annars var frávikshegðun barna og ungmenna rædd sérstaklega og gerðu fulltrúar landanna grein fyrir helstu verkefnum eða rannsóknum.

Í frétt á vef lögreglunnar segir að Norðmenn leggi mikla áherslu á mikilvægi þess að bregðast við vanrækslu barna á fyrstu stigum og hafa útbúið tveggja mínútna aðgengilegt myndband til að vekja starfsfólk sem vinna með börn til umhugsunar um vandamálið. Það hefur sýnt sig að vanrækt börn eru líklegri til að sýna frávikshegðun síðar á ævinni.

Þá sagði fulltrúi Barnaverndarstofu frá áherslu Íslendinga á að leysa vandmál barna og fjölskyldna á heimilum þeirra með fjölþátta meðferð (e. Multisystematic Therapy). Niðurstöður þessa verkefnis voru kynntar, en einstaklingunum er fylgt eftir og athuguð ýmis frávikshegðun og hversu stór hluti ungmennanna kemur við sögu lögreglunnar eftir meðferð.

Fulltrúi frá Grænlandi kynnti stöðu Grænlands í tengslum við afbrot og frávikshegðun, en þar er fimm sinnum hærri afbrotatíðni en í Danmörku. Síðustu ár hafa sjónir beinst að börnum og ungmennum þar í landi og ýmis verkefni verið sett á laggirnar, m.a. til að takast á við ótímabæra þungun unglingsstúlkna.

Næsti fundur afbrotavarnarráða verður haldinn í Noregi vorið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert