Husky-hundur réðst á lítinn hvolp

Hundur af gerðinni Siberian Husky.
Hundur af gerðinni Siberian Husky.

„Allt í einu kom Husky-hundur, hann réðst á hvolpinn. Ég var svo hrædd og skelf ennþá af hræðslu,“ segir kona sem var á gangi með tvo hvolpa í Hlíðahverfinu í Reykjavík er hundur af Siberian Husky-tegund kom aðvífandi og réðst á annan hvolpinn.

Hún segist sannfærð um að um Husky-hund hafi verið að ræða.

„Ég var með Border Collie-hvolp og annan Chihuahua. Þá kom þessi hundur hlaupandi og réðst á Border Collie-hvolpinn sem er tíu mánaða. Hann var laus og enginn eigandi sjáanlegur.“

Hvolpurinn vældi af hræðslu

Konan segir sér hafa brugðið ákaflega, hún reyndi að fæla hundinn á brott, en hann kom jafnskjótt aftur og réðst ítrekað á hvolpinn, sem vældi af hræðslu.

„Það endaði með því að ég reyndi að sparka Husky-hundinum í burtu, ég var svo hrædd um hvolpinn og vildi ekki að hann myndi stórslasast. Ég reyndi að komast í burtu, en hann kom alltaf aftur. Það var enginn nálægt, ég hrópaði á hjálp. Sem betur fer kom maður mér til hjálpar eftir nokkra stund og rak hundinn á brott, sem hljóp síðan sína leið.“

Hefur ekki ákveðið hvort hún muni kæra

Konan segir að ekki sjái á hvolpinum, en honum sé verulega brugðið. 

„Ég vona að hann nái sér,“ segir hún og hefur ekki gert upp við sig hvort hún muni kæra atvikið til lögreglu. „Mér er bara svo brugðið, að ég hef ekki ákveðið það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert