Forsetinn farinn til Tékklands

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson .
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson . mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff héldu í morgun í opinbera heimsókn til Tékklands. Forseti mun þar m.a. eiga fundi með Václav Klaus, forseta Tékklands, Petr Nečas forsætisráðherra og fleiri ráðamönnum auk þess sem hann sækir ferðamálakynningu sem Íslandsstofa stendur að í Prag. Í sendinefnd Íslands verða einnig Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, embættismenn frá utanríkisráðuneyti og skrifstofu forseta og fulltrúar fræða og menningar.

Opinbera heimsóknin hefst á morgun, fimmtudaginn 17. maí, með opinberri móttökuathöfn við Pragkastala. Eftir hana mun forseti eiga fund með Václav Klaus, forseta Tékklands, ásamt sendinefndum landanna og ræða við blaðamenn í kjölfarið. Þá heimsækir forseti Íslands báðar deildir tékkneska þingsins og á fundi með forsetum þeirra og fulltrúum þingflokka. Forseti mun og skoða hið fornfræga ráðhús borgarinnar og eiga fund með borgarstjóranum. Að kvöldi fyrra dags heimsóknarinnar býður forseti Tékklands íslensku forsetahjónunum og öðrum íslenskum gestum til hátíðarkvöldverðar í Pragkastala.

Að morgni föstudagsins 18. maí mun forseti Íslands eiga fund með Petr Nečas forsætisráðherra. Að því loknu heimsækir forsetinn Karlsháskólann, eina elstu starfandi menntastofnun Evrópu, og flytur þar fyrirlestur um samspil lýðræðis og fjármálamarkaða. Heiti fyrirlestrarins á ensku er Democracy Challenges Global Finances – Lessons from the Icelandic Experience.

Að loknum fyrirlestrinum mun forseti svara fyrirspurnum og eiga fund með rektor og öðrum stjórnendum skólans. Þá mun forseti einnig leggja blómsveig að minnisvarða á Vítkovhæð þar sem hússítar unnu sigur á krossfaraher árið 1420. Eftir hádegi skoðar forseti Strahovklaustrið í Prag og heimsækir því næst Tékknesku kvikmyndaakademíuna (FAMU) þar sem margir Íslendingar hafa stundað nám. Á málþingi í Kvikmyndaakademíunni verður fjallað um tengsl landanna á sviði kvikmyndagerðar fyrr og nú.

Auk forseta taka þátt í málþinginu Börkur Gunnarsson kvikmyndagerðamaður og Helgi Haraldsson fyrrverandi prófessor. Síðdegis föstudaginn 17. maí flytur forseti ávarp við upphaf sérstakrar sýningar á kvikmyndinni Eldfjall/Volcano eftir Rúnar Rúnarsson sem efnt er til í tilefni af hinni opinberu heimsókn. Forseti flytur einnig ávarp í móttöku sem Íslandsstofa efnir til í kynningarskyni fyrir aðila í ferðamálageiranum. Iceland Express flýgur með forseta og aðra íslenska gesti til Tékklands og markar sú ferð upphaf á beinu flugi sem verður reglubundið frá og með júní næstkomandi.

Heimsókn forsetahjónanna til Tékklands lýkur með því að þau sækja tónleika Andreu Gylfadóttur söngkonu og fleiri listamanna í Prag.

Þátttakendur í þessari ferð til Tékklands eru auk embættismanna m.a. ýmsir aðilar tengdir ferðaþjónustu á Íslandi, starfsmenn Íslandsstofu og Helgi Haraldsson fyrrverandi prófessor en þau Helgi og Marta Bartošková hafa samið íslensk-tékkneska / tékknesk-íslenska orðabók sem kemur út síðar á árinu.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina