Tólf stigin duga ekki Íslandi til sigurs

Cecilia Malmström framkvæmdastjóri innri málefna í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á fundinum …
Cecilia Malmström framkvæmdastjóri innri málefna í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á fundinum í gær.

Í aðdraganda Alþjóðlegs dags gegn hómófóbíu og transfóbíu á morgun gáfu ILGA-Europe í gær út sitt fyrsta „Ársyfirlit yfir stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Evrópu“. Ritinu fylgdi ný útgáfa af svokölluðu „Regnbogakorti“ sem sýnir stöðu mála myndrænt eftir ríkjum. Viðstödd útgáfu Ársyfirlitsins og Regnbogakortsins voru Cecilia Malmström framkvæmdastjóri innri málefna í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, embættismenn frá Sameinuðu þjóðunum, fulltrúar ýmissa borgarasamtaka og hinsegin aðgerðasinnar frá Austur Evrópu. ILGA-Europe eru regnhlífarsamtök 359 mannréttindafélaga lesbía, homma, tvíkynhneigðra, transgender- og intersexfólks í 44 löndum Evrópu og hafa Samtökin '78 á Íslandi átt aðild að þeim um árabil. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökunum '78.

Ekkert ríki með fullt hús stiga

Í Ársyfirlitinu og Regnbogakortinu er dregin upp heildarmynd af núverandi stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Evrópu. Á Regnbogakortinu er litið á stöðu mála út frá lagalegu sjónarhorni en þar kemur glögglega í ljós að ekkert Evrópuríki getur með réttu haldið því fram að hinsegin fólk hafi að fullu náð sömu réttindum og aðrir borgarar. Ríki geta að hámarki náð 30 stigum, en eftirfarandi eru þau ríki sem röðuðu sér í fimm efstu sætin: Bretland (21 stig), Þýskaland og Spánn (20 stig hvort), Svíþjóð (18 stig), Belgía (17 stig).

Af ríkjunum 49 fá 11 þeirra neikvæð stig og ná ekki að uppfylla grundvallarkröfur um mannréttindi. Í tveimur neðstu sætunum sitja Moldóva og Rússland með -4,5 stig hvort. Þá koma Armenía, Azerbadjan (þar sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram eftir nokkra daga), Makedónía og Úkraína með -4 stig hvert. Mónakó, San Marínó og Tyrkland hljóta -3 stig hvert en ástandið er örlítið betra í Hvíta Rússland og Liechtenstein og skorar hvort ríki -1 stig.

 „Þegar á heildina er litið stendur þó upp úr sú staðreynd að að meðaltali er lagalegt jafnrétti hinsegin fólks í flestum löndunum áfram á mjög lágu stigi,“ segir í tilkynningu Samtakanna.

 Ísland er ásamt Austurríki í 10.-11. sæti á Regnbogakortinu með 12 stig og stendur Ísland í stað milli ára. Í tilviki Íslands er það sérstaklega slæm réttarstaða transfólks sem dregur landið niður en með frumvarpi velferðarráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi stendur til að bæta þar úr. Eins má ætla að landið færist ofar á listann þegar og ef ný stjórnarskrá verður samþykkt. Frumvarp Stjórnlagaráðs gerir nefnilega ráð fyrir stjórnarskrárbundnu jafnrétti samkynhneigðra. Á sínum tíma náðist ekki samstaða í ráðinu um að láta slíka vernd einnig ná til transfólks og verður því ekki minnst á kynvitund í jafnræðisgrein nýrrar stjórnarskrár nema frumvarpið breytist og verði samþykkt þannig, segir í tilkynningunni.

Árangur náðist í viðurkenningu á kynhneigð

Ársyfirlitið styður upplýsingarnar sem finna má á Regnbogakortinu og veitir innsýn í þá pólitísku og félagslegu þróun sem hefur orðið til þess að ýta undir lagalega og félagslega viðurkenningu á réttindum hinsegin fólks um alla álfuna. Þegar litið er á bjartari hliðar þess má sjá að á árinu 2011 náðist mikill árangur hvað varðar viðurkenningu á kynhneigð og kynvitund, bæði á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.

„Þetta á sérstaklega við þegar kemur að hælisleitendum og vernd gegn ofbeldi. Ýmis lönd unnu áfram að útvíkkun lagalegrar viðurkenningar og jöfnum réttindum hinsegin fjölskyldna. Þá hefur fjöldi lagafrumvarpa verið lagður fram sem miðar að innleiðingu mannúðlegra reglna er varðar breytingu á formlegri skráningu á nafni og kyni transfólks. En yfirlitið á líka sína skuggahliðar. Í nokkrum landanna hefur ekkert þokast í betri átt og sum ríki hafa meira að segja gengið í þveröfuga átt og hafið innleiðingu löggjafar sem gerir „áróður fyrir samkynhneigð“ að glæpsamlegu athæfi,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Evelyne Paradis, framkvæmdastjóri ILGA-Europe sagði við útgáfuna að það væri ILGA-Europe sönn ánægja að kynna til sögunnar þetta nýja verkfæri sem veitti heildaryfirlit yfir stöðu hinsegin fólks í öllum 49 löndum Evrópu. „Regnbogakortið okkar og [mannréttinda]vísitala hafa þegar sannað notagildi sitt og eru vinsæl verkfæri til að leggja mat á lagalega stöðu. Með Ársyfirlitinu göngum við skrefinu lengra og köfum dýpra í það félagslega og pólitíska samhengi sem á þátt í að móta raunverulega upplifun og aðstæður hinsegin fólks.“

Evelyne sagði enn fremur að formlegt jafnrétti væri einungis skref í átt að fullri samfélagsþátttöku. „Og jafnvel á því sviði sjáum við mikinn mun á milli ríkja og gloppur víða um Evrópu. Ekkert landanna getur með réttu sagst hafa náð fullu lagalegu jafnrétti, hvað þá félagslegu jafnrétti. Af þessum sökum vonum við að Ársyfirlitið skapi góðan grunn til að byggja á. Að með því skapist tækifæri til að deila því verklagi sem þykir til fyrirmyndar og um leið fóstra samræðu milli ríkjanna og hinsegin samfélagsins.“

 Frétt ILGA-Europe um málið

Hlekkur í Ársyfirlitið

Hlekkur í Regnbogakortið og mannréttindavísitöluna

Hlekkur á myndir af viðburðinum í gær

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert