Björgunarmenn komnir á slysstað

Björgunarbátur á Ísafirði
Björgunarbátur á Ísafirði mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Björgunarsveitarmenn eru komnir að manninum sem hrapaði í Aðalvík á Hornströndum fyrr í dag. Eru þeir að hlúa að honum en ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan hans. Áætlað er að þyrla Landhelgisgæslunnar lendi á Sæbóli við Aðalvík klukkan 18:15.

Samkvæmt upplýsingum frá Jónasi Guðmundssyni hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er stefnt að því að flytja manninn með björgunarskipi að Sæbóli og þaðan muni þyrlan flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík. Er það um klukkustundar langt flug.

Tilkynning barst um að maður sem  var  við eggjatöku í Aðalvík á Hornströndum hefði hrapað 10–20 metra niður klettabjarg um klukkan hálffjögur í dag.

Björgunarskip á Ísafirði ásamt hraðskreiðum björgunarbátum fóru á staðinn með mannskap og komu þangað fyrir skömmu og er verið að hlúa að manninum. Vanir fjallabjörgunarmenn eru á leiðinni vestur með þyrlunni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar
Þyrla Landhelgisgæslunnar Af vef Landhelgisgæslunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert