Landið búið undir hrun evru

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin og ráðherranefndir fylgjast grannt með vandamálum í Evrópu og rædd hafa verið viðbrögð við því ef evrusamstarfið flosnar upp. Reynt er að undirbúa landið undir ófyrirsjáanlega atburði en ekki sé hægt að sjá fyrir hversu víðtæk áhrifin yrðu ef staðan versnar. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, aðspurður af Illuga Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, um málið á þingi í dag.

Illugi spurði hvort undirbúningur hafi verið hafinn og hvort viðbragðsáætlun liggi fyrir þurfi Grikkir að yfirgefa evrusamstarfið. Hann sagði ljóst að gríðarlega efnahagslegar þrengingar verði hjá okkar helstu viðskiptaþjóðum ef evran flosnar upp, hvort sem er í sjávarútvegi eða ferðamennsku. Hrun evrunnar hefði því gríðarleg áhrif á efnahag Íslendinga.

Steingrímur sagði meðal þess sem skoðað sé er þörfin á auknum gjaldeyrisforða ef staðan versnar. Enn sem komið er sé ekki að merkja neikvæð merki á útflutning Íslendinga en það sé eitt af því sem þurfi að búa sig undir.

Steingrímur tók einnig vel í að flytja Alþingi skýrslu um viðbúnaðinn, eða upplýsa um hann í umræðum á þinginu.

mbl.is