Skotárásarmaður áfrýjaði dómi

Frá því skotárásarmálið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá því skotárásarmálið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Sigurgeir

Karlmaður sem í Héraðsdómi Reykjavíkur var dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar fyrir þátt sinn í skotárásarmáli sem upp kom í Bryggjuhverfinu í Reykjavík hefur áfrýjað dómi sínum til Hæstaréttar. Þrír voru ákærðir í málinu og stendur niðurstaða héraðsdóms vegna tveggja.

Mennirnir voru ákærðir fyrir tilraun til manndráps og hlutdeild í nefndu broti. Af þeim voru tveir sakfelldir fyrir að taka þátt í skotárásinni en einn sýknaður. Allir voru sýknaðir af aðalkröfu ákæruvaldsins, að um tilraun til manndráps væri að ræða, en tvímenningarnir  sakfelldir fyrir hættubrot og hlutdeild í hættubroti.

Maðurinn sem hleypti af haglabyssunni, Kristján Halldór Jensson, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir þátt sinn. Hann skaut úr haglabyssu einu skoti í áttina að bíl fórnarlambsins í málinu, en hæfði ekki. Þegar fórnarlambið ók á brott veittu mennirnir þrír honum eftirför og skaut Kristján þá öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar. Við skotið brotnaði afturrúða bíls fórnarlambsins og miklar skemmdir urðu á henni.

Krafðist sýknu í málinu

Hinn maðurinn hlaut átján mánaða fangelsi og leit dómurinn til þess að hann og Kristján sammæltust um að taka með umrædda byssu. Þá hafi hann átt frumkvæði að fundinum þar sem byssan var notuð, og veitt bifreið fórnarlambsins eftirför. Dómurinn leit svo á að aksturslagið hafi í nefndri eftirför verið með þeim hætti að hann hafi verið að reyna að komast í skotfæri við bifreiðina.

Sá var ósáttur með dóm sinn en hann krafðist sýknu í málinu. Verjandi hans sagði við málflutning að í ákæruna hafi vantað lýsingu á refsiverðri háttsemi skjólstæðings síns. Ekkert hafi komið fram um hvernig maðurinn átti að hafa verið hlutdeildarmaður í brotinu, hvernig hann á að hafa liðsinnt öðrum, hvatt eða komið að því að brotið hafi verið framið. Ákvað hann því að áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara var málinu ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins, og stendur því niðurstaða héraðsdóms að öðru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert