Hamfaraskriða við Dyrhólaey

Mannhæðarháar öldur í brimrótinu við Dyrhólaey.
Mannhæðarháar öldur í brimrótinu við Dyrhólaey. Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Dyrhólaey var á forgangslista vegna aðgerða til að draga úr ágangi ferðamanna á friðlýstum svæðum eftir úttekt á sem Umhverfisstofnun gerði árið 2010. Samhliða þeim framkvæmdum var einnig hugað að öryggi ferðamanna. Í fyrra var ráðist í úrbætur á Háeynni, sett upp skilti og girðing á helsta útsýnisstaðnum. Einnig var stikuð gönguleið um svæðið. Fólkinu sem unnið hefur að öryggi svæðisins er mjög brugðið vegna atburða dagsins.

„Það eru víða hættur á þessu svæði, eins og er gjarnan við bjargbrúnir þar sem mikil umferð er af fólki eins og á Látrabjargi, við Hornbjarg og víðar,“ segir Ólafur Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. Hann  gerði tillögu ásamt Ferðamálastofu og Landsbjörgu um að gerð yrði áætlun um úttekt á öryggi á svæðinu sem var send iðnaðarráðherra.

Mikið breyst á tveimur árum

Þúsundir ferðamanna skoða Dyrhólaey á hverju sumri. Ólafur segir álagið þar mikið á tiltölulega litlu svæði. Engir innviðir hafi verið til að taka á móti öllu þessu fólki og svæðið því farið að láta verulega á sjá. Háey Dyrhólaeyjar var því eitt af forgangssvæðum vegna aðgerða, m.a. vegna sprungu sem þar er og í fyrra var verkfræðingur fenginn til að fara um svæðið og meta aðstæður. 

Eftir það var sett upp nokkuð rammgerð girðing á aðal útsýnissvæðinu, þar sem áður var aðeins band. Gönguleiðir á svæðinu voru líka merktar, sett upp varúðarskilti og akvegurinn upp á eyna lagaður.

Dyrhólaey er lokuð hluta úr sólarhring yfir varptímann en á meðan svæðið er opið almenningi, frá 9 til 18 á daginn, er þar landvörður að störfum og svo var einnig í dag. Margt hefur því breyst við Dyrhólaey á undanförnum tveimur árum.

Kom fólki í opna skjöldu

Mbl.is sagði frá því í dag að jafnstór skriða hefur ekki fallið úr Dyrhólaey í 25 ár. Ólafur segir að enginn hafi séð þetta fyrir.

„Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig þetta gerðist í dag, og við erum enn að skoða þetta, en það er alveg ljóst að þetta er mun meira hrun en hefur verið í lengri tíma á þessum stað,“ segir Ólafur.

Hann bendir á að meðfram bjarginu liggi merkt gönguleið sem stikuð hafi verið af reyndu fólki semþekki svæðið vel. Sveitarfélagið hefur umsjón með svæðinu.

„Þannig að þetta kemur fólki bara í opna skjöldu. En auðvitað mun sveitarfélagið fara yfir þetta í samráði við okkur og gera viðeigandi ráðstafanir.“

Fyrsta skrefið er að á morgun verða settar upp fleiri merkingar til að vara fólk við og svæðið girt af þar sem þörf er á. „

Í framhaldinu verður skoðað til hvaða aðgerða þarf að grípa. Mikilvægt er að fólk gæti sífellt varúðar enda víða hættur í náttúru Íslands,“ segir Ólafur.

Ferðamaður við Dyrhólaey
Ferðamaður við Dyrhólaey Rax / Ragnar Axelsson
Björgunarsveitarmenn úr Víkverja að störfum í Kirkjufjöru í dag.
Björgunarsveitarmenn úr Víkverja að störfum í Kirkjufjöru í dag. Mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert