„Hæstiréttur staðfesti nýlega dóm fjölskipaðs héraðsdóms þar sem felld var úr gildi stjórnvaldssekt Fjármálaeftirlitsins á hendur EA fjárfestingafélagi (áður MP banka hf.) fyrir brot á reglum um stórar áhættuskuldbindingar (mál 593/2011). Dómurinn er athyglisverður því hann sýnir að Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) var á villigötum í umfjöllun sinni um stórar áhættuskuldbindingar“, segir Jónas Fr. Jónsson, lögmaður og fv. forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir í grein sinni að RNA hafi talið einsýnt að málum, sem voru til rannsóknar hjá FME, hefði átt að vera lokið með sektum eða ákærumeðferð. Lítið var gefið fyrir sjónarmið um vandaða málsmeðferð.
Í niðurlagi greinar sinnar segir Jónas Fr.: „Hæstiréttur var ein af fáum stofnunum þjóðfélagsins sem meðtóku skýrsluna af fagmennsku og hefur m.a. sagt skýrum orðum að skýrsla RNA feli ekki í sér sönnun (mál 561/2010). Það myndi bæta greiningu og lærdóm vegna fjármálakreppunnar 2008 ef þeir aðilar sem vilja ástunda gagnrýna hugsun og vandaða heimildaöflun nálguðust skýrslu RNA á sama faglega hátt“.