Með ólíkindum að sleppa lifandi frá fallinu

Björgunarsveitarmennirnir eru smáir undir hömrunum við Kirkjufjöru þar sem fólkið …
Björgunarsveitarmennirnir eru smáir undir hömrunum við Kirkjufjöru þar sem fólkið féll niður með skriðu. Mbl.is/Jónas Erlendsson

„Þetta getur gerst hvar sem er þarna, þessar brúnir eru alveg stórhættulegar," segir Þorsteinn Gunnarsson, bóndi á Vatnsskarðshólum við Vík, sem kallaður var á vettvang þegar tveir ferðamenn féllu fram af klettum við Dyrhólaey. Þorsteinn segir með ólíkindum að þau hafi sloppið lifandi. Enginn varð var við að þau féllu.

Ferðamennirnir, karl og kona, eru nú á leið með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík. Þrátt fyrir að hafa fallið tæpa 40 metra niður í fjöruna virðast þau ekki hafa slasast alvarlega miðað við fyrstu fregnir, maðurinn mun þó vera fótbrotinn og konan með meiðsli í baki. Enginn varð var við að þau féllu en konan gat gengið eftir fjörunni og gert viðvart með því að kalla upp klettinn eftir hjálp.

Brimsorfið hamrabelti

Fólkið var statt á Lágey, sunnan Dyrhólaeyjar, þegar yfir 100 metra breitt belti hrundi undan fótum þeirra og féll niður þar sem nefnist Kirkjufjara. Skriðan hefur væntanlega dregið úr fallinu, að sögn Þorsteins. „Það er lán þeirra að þau einhvern veginn fljóta ofan á þessu niður, það er alveg með ólíkindum að sleppa lifandi úr þessu. Þetta er mjög hættulegt svæði undir þessum hömrum. Þegar hátt er í sjó og brim þá er sjórinn alveg upp við bergið þarna á kafla svo þetta getur verið mjög varhugavert.“

Þorsteinn segir að tímans tönn hafi smátt og smátt bitið á berginu við Dyrhólaey. „Þetta er mikið móberg og sprungið. Núna er búið að vera þurrt lengi þegar hann fer skyndilega að væta og þá gengur vatnið ofan í sprungurnar, og oft þarf nú ekki meira til.“

Brúnin öll stórhættuleg

Mikill fjöldi ferðamanna fer að Dyrhólaey á ári hverju. Band hefur verið sett við hluta klettabrúnarinnar framan við vitann. Þorsteinn segir að svæðið þar sem fólkið féll sé ekkert girt af. 

„Það er nú dálítið erfitt. Öll brúnin þarna er stórhættuleg, þetta er svo laust í sér og alltaf að flysjast úr. Það hefur náttúrulega ekkert fjármagn verið til í þennan stað, en við höfum samt verið með merkingar þar sem er hætta á grjóthruni og eins er komin upp aðvörun í sambandi við brimið, að vara sig á öldunni þarna og við Reynisfjall.“ Ekki hefur fallið svo mikið úr brúninni í mörg ár að sögn Þorsteins, en fyrir um 25 árum varð hann sjálfur vitni að því þegar stór bjarg hrundi úr brúninni sunnan megin við Dyrhólaeyjarvita. 

„Þetta var bara eins og skorið með hníf alla leið niður, og daginn áður var full rúta af fólki sem stóð þarna alveg fram á brúninni og var að mynda niður á gatið. Eftir það hrun myndaðist sprunga þarna sem ber nú ekkert á í dag, en það er ekki spurning hvort það fari, það bara fer fyrr eða síðar. Það þyrfti að reyna að girða fyrir þessa brún, en það er aldrei hægt að girða fyrir allt svona.“

Gekk ótrúlega vel

Björgunaraðgerðirnar í dag gengu hratt og vel fyrir sig og má segja að allt hafi farið á besta veg miðað við aðstæður. Þorsteinn var sjálfur í viðbragðsstöðu á hjólabát og björgunarsveitirnar ef ná þyrfti til fólksins sjóleiðis og björgunarsveitarmenn höfðu búið sig undir að þurfa að síga í bjargið eftir fólkinu, en til þess kom ekki þar sem unnt var að komast um skarð í hamrinum niður í fjöruna.

„Það hittir þannig á að þetta var á lágfjöru, en samt var það þannig að það var mjög tæpt að fara þetta,“ segir Þorsteinn. „Þannig að þetta gekk allt ótrúlega vel. Þeir kunna sitt fag, björgunarsveitarmenn og læknirinn frá Vík var kominn Vík strax niður til þeirra og hlúði að þeim.“

Fjölmennt lið fór á vettvang og var fyrst hlúð að …
Fjölmennt lið fór á vettvang og var fyrst hlúð að fólkinu í sjúkrabílum áður en þyrlan flutti það á Landspítalann. Mbl.is/Jónas Erlendsson
Ferðamennirnir voru fluttir með þyrlu á Landspítalann.
Ferðamennirnir voru fluttir með þyrlu á Landspítalann. Mbl.is/Jónas Erlendsson
Gríðarmikil skriða féll og hreif fólkið með sér.
Gríðarmikil skriða féll og hreif fólkið með sér. Grétar Einarsson/Björgunarsveitin Víkverji
Klettabeltin við Dyrhólaey eru ekki árennileg.
Klettabeltin við Dyrhólaey eru ekki árennileg. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina