Dómur fallinn í Straumsvíkurmálinu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í fangelsi í Straumsvíkurmálinu svonefnda. Hlutu þeir fjögurra og hálfs árs fangelsi og tveggja ára fangelsi. Dómur var kveðinn upp á tíunda tímanum í morgun.

Sævar Sigurðsson hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir þátt sinn í málinu og Geir Hlöðver Ericsson tveggja ára fangelsi.

Geir Hlöðver og Sævar voru ákærðir fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum til landsins, nánar tiltekið tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin voru flutt til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október 2011.

Ákæruvaldið fór fram á tólf ára fangelsi yfir Geir Hlöðveri og tíu ára fangelsi yfir Sævari Sverrissyni. 

Dómurinn hefur enn ekki verið birtur en ljóst má vera af dómsorði að Geir Hlöðver var sýknaður var ákærunni um innflutninginn. Hann hins vegar játaði stórfellt fíkniefnabrot í öðrum lið, vörslur á 659 grömmum af amfetamíni sem fundust á heimili hans og vörslur á rúmum átta grömmum af maríujúana.

Sævar hefur hins vegar verið sakfelldur fyrir aðild að innflutningnum, en hugsanlega aðeins sem burðardýr en ekki skipuleggjandi.

Dómar voru kveðnir upp yfir fleiri mönnum, en þeir voru vægari og tengdust ekki hinu eiginlega Straumsvíkurmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert