„Hvatning til okkar beggja“

Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff.
Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er ánægjuleg staðfesting á því sem við Dorrit höfum fundið á fundum, vinnustöðum og á viðræðum við fólk undanfarið,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, um nýja skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 þar sem hann mældist með 53,9% fylgi.

Að sögn Ólafs hafa þau Dorrit lagt áherslu á að það fari fram málefnaleg, efnisrík og kurteisleg samræða um forsetaembættið og framtíð þjóðarinnar í aðdraganda forsetakosninganna. „Þessi niðurstaða er hvatning til okkar beggja, og allra, um að halda þeirri efnisríku samræðu áfram um allt land og það munum við gera, við munum á næstu dögum og vikum eiga fjölda slíkra funda hér á höfuðborgarsvæðinu og fara síðan um byggðir landsins,“ segir Ólafur.

Aðspurður hvort hann sjái fram á að geta viðhaldið þessu fylgi fram á kjördag segir Ólafur: „Það verður að koma í ljós. Við munum auðvitað halda þessari samræðu áfram. Ég ýtti kosningabaráttunni úr vör fyrir tæpum tveimur vikum með ríkri áherslu á efnisríkar umræður og hið stjórnskipulega eðli forsetaembættisins sem og framlag þess til farsældar og hagsældar þjóðarinnar og er greinilegt að þær áherslur hafa hlotið sterkan stuðning en við munum þrátt fyrir þessa könnun halda áfram af miklum krafti, allt fram að kjördegi, ferðum okkar um landið og samræðum við fólk á öllum vettvangi.“

Í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem gerð var dagana 11. og 12. apríl, sögðust 46% ætla að kjósa Ólaf. „Ég get auðvitað ekki svarað því en það sem gerst hefur í millitíðinni er það að fyrir um það bil tveimur vikum hóf ég þessa umræðu með skýrum hætti því ég taldi nauðsynlegt að lýsa því afdráttarlaust hver málefnagrundvöllur þessara kosninga væri og hvað mikið væri í húfi þegar þjóðin gengi að kjörborðinu,“ segir Ólafur aðspurður hvað hann telji útskýra þessa miklu aukningu á fylgi sínu á milli kannana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert