Skjaldborg í skjóli fjalla

Merki Skjaldborgarhátíðarinnar 2012
Merki Skjaldborgarhátíðarinnar 2012 Vefur Skjaldborgar 2012

„Þetta litar bæjarlífið virkilega skemmtilega,“ segir Alda Davíðsdóttir, Skjaldborgarstjóri í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði. Um helgina hafa í kringum 300 manns sótt heimildamyndahátíðina Skjaldborg í bænum en þetta er í sjötta sinn sem hátíðin fer fram.

20-30 myndir sýndar og samstarf við CPH:DOX 

Á bilinu 20-30 myndir eru sýndar á hátíðinni í ár en eingöngu er um að ræða frumsýningu íslenskra mynda, auk þess sem fjórar erlendar myndir eru sýndar. Heiðursgestur hátíðarinnar er Daninn Max Kestner, og sýndi hann tvær mynda sinna auk þess að taka þátt í pallborðsumræðum. Þá voru einnig sýndar tvær myndir af dönsku heimildamyndahátíðinni CPH:DOX á Skjaldborg í ár. Er samstarfið á milli hátíðanna tveggja komið til að vera að sögn Öldu og munu íslenskar myndir einnig vera sýndar á dönsku hátíðinni í nóvember.

Fullt út úr dyrum í bíóinu - setið þar sem hægt er

Að sögn Öldu er aðsóknin að hátíðinni svipuð og undanfarin ár og mikið líf í bænum. Íbúar á Patreksfirði hafa einnig verið duglegir að sækja hátíðina og hefur verið fullt á allar sýningar í bíóhúsinu, sem hátíðin er kennd við. Þess má geta að húsið tekur 180 manns í sæti og er setið upp alla stiga þegar mest er, sem er æði oft á hátíðinni.

Sú nýbreytni var viðhöfð í ár að skylda var að hafa hafa enska texta á öllum myndum. Að sögn Öldu er það gert til að opna á þann möguleika að erlendir ferðamenn geti líka sótt hátíðina.

Besta myndin valin, karlakór hátíðarinnar og lokahóf í kvöld

Í kvöld velja áhorfendur bestu heimildarmyndina á Skjaldborg 2012. Einnig er búið að safna saman bössum og baritónum í karlakórinn „Eitthvað“ og mun hann hefja upp raust sína. Hátíðinni lýkur síðan með balli fram á nótt.

Fullt út úr dyrum bíóhússins Skjaldborgar.
Fullt út úr dyrum bíóhússins Skjaldborgar. Vefur Skjaldborgar 2012
Boðið var upp á plokkfisk á laugardagskvöldinu.
Boðið var upp á plokkfisk á laugardagskvöldinu. Vefur Skjaldborgar 2012
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert