Játuðu aðild að úraráni

Mál gegn þeim Grzegorz Marcin Nowak og Pawel Jerzy Podburaczynski sem eru ákærðir fyrir að ræna úrum í verslun Frank Michelsen í október sl. var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Báðir mennirnir játa aðild að ráninu en neita að hafa komið að skipulagningu þess.

Aðalmeðferð í málinu fer fram 13. júní nk.

Mennirnir eru ákærðir fyrir rán og nytjastuld í október í fyrra í félagi og ásamt samverkamönnunum Marcin Tomasz Lech og Pawel Artur Tyminski. Þeir eru sakaðir um að hafa ráðist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi á starfsfólk úra- og skartgripaverslunarinnar Michelsen í því skyni að komast yfir verðmæti í versluninni og tekið þaðan 49 armbandsúr af gerðunum Rolex, Tudor og Michelsen, samtals að verðmæti rúmlega 50 milljónir kr.

Fram kemur í ákæru ríkssaksóknara að mennirnir hafi komið til landsins gagngert í þeim tilgangi að komast yfir úr í versluninni Michelsen.

Þá segir að þeir hafi tekið fjóra bíla í heimildarleysi og notað þá við ránið.

Þeir Nowak og Podburaczynsk neita því að hafa stolið bílunum.

Krefjast milljóna í miskabætur

Báður játuðu þeir aðild að ráninu en Nowak neitaði að koma að skipulagningu þess. Podburaczynsk neitaði sömuleiðis að koma að skipulagningunni sem og fjármögnun ránsins.

Þá er Podburaczynski fyrir ákærður fyrir þjófnað úr Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í Kringlunni. Hann játaði sök við þingfestinguna.

 Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá kemur fram í ákærunni, að af hálfu Franks Úlfars Michelsen og starfsmanna hans er þess að ákærðu greiði þeim miskabætur. Samtals hljóðar krafan upp á tæpar 27 milljónir kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert