25,6 stiga hitamunur á landinu

Margir hafa notið veðurblíðunnar til sólbaða, eins og þessar stúlkur …
Margir hafa notið veðurblíðunnar til sólbaða, eins og þessar stúlkur á Austurvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Töluverður munur var á minnsta og mesta hita á landinu síðasta sólarhring, samkvæmt því sem kemur fram á vefsvæði Veðurstofu Íslands. Á Fáskrúðsfirði mældist 2,8 stiga frost en á Hellu og í Árnesi 22,8 stiga hiti, munurinn því 25,6 stig.

Ef aðeins er litið til síðustu klukkustundar má sjá, að á Þjórsárbrú mældist hiti 19,8 stig og við Ingólfsfjall 19,5 stig. Minnsti hiti mældist hins vegar á Vattarnesi, 3,6 stig.

Litlar breytingar verða á veðrinu fram á morgun. Samkvæmt spá Veðurstofunnar verður hægviðri eða hafgola og yfirleitt léttskýjað, en sums staðar þokubakkar við sjóinn, einkum að næturlagi. Hiti 12 til 20 stig að deginum, hlýjast í uppveitum SV-lands, en svalara við A-ströndina.

Á mánudag þykknar hins vegar upp Norðan- og Austanlands með lítilsháttar vætu, þegar kemur fram á daginn má búast við skúrum á Sunnanverðu landinu einnig. Hiti verður frá 4 stigum og upp í 16, hlýjast SV-lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert