Þörf á heimili fyrir tvígreindar konur

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar telur ekki seinna vænna að stofna heimili fyrir tvígreindar konur, þ.e. konur með geð- og fíknigreiningu, en upplýsingar liggja fyrir um þörfina á slíku heimili. Meirihluti ráðsins vísaði tillögunni til stefnumótunar í málefnum utangarðsfólks sem framundan er.

Tekist var á um málefni tvígreindra kvenna á fundi velferðarráðs fyrir helgi. Fulltrúi VG benti á að fyrir fjórum mánuðum hefði hann lagt fram tillögu um að boðið yrði upp á þjónustu fyrir tvígreindar konur til jafns við þá þjónustu sem tvígreindum karlmönnum er boðin.

Vísaði fulltrúinn í umsögn Velferðarsviðs um tillöguna en í henni kemur fram að þrjár til níu konur hafi þörf á umræddu úrræði. Var tillagan því ítrekuð og lagt til að undurbúningur verði hafinn.

Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins ákváðu eins og áður segir að vísa tillögunni til stefnumótunar í málefnum utangarðsfólks sem framundan er. Í bókun meirihlutans segir að úrræði fyrir tvígreindar konur verði skoðað í haust samhliða vinnu við gerð nýrrar stefnu í málaflokknum. Meðal annars þurfi að gera þarfagreiningu.

Engin þarfagreining hjá körlunum

Niðurstaðan hugnaðist ekki fulltrúa VG sem benti á að hægt hefði verið að ráðast í þarfagreiningu á þeim fjórum mánuðum sem liðið hafa frá því tillagan var fyrst lögð fram. „Reyndar fylgdi engin þarfagreining með gögnum þegar velferðarráð samþykkti að þjónustuúrræði að Miklubraut 20 yrði breytt í búsetukjarna fyrir geðfatlaða/framheilaskaðaða tvígreinda karla sem ekki geta haldið sig frá neyslu.“

Þá segir í bókun að það úrræði hafi verið staðfesting á ríkri þörf sem geti ekki aðeins átt við um karla.

mbl.is