Hættulegir barnaníðingar höfnuðu meðferð

Bragi Guðbrandsson.
Bragi Guðbrandsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hluti þeirra  5-10 kynferðisbrotamanna hér á landi, sem taldir eru haldnir barnagirnd á mjög háu stigi, hefur hafnað bæði lyfja- og sálfræðimeðferð að lokinni afplánun fyrir brot sín. Þetta segir Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu.

Hann segir að það hafi vissulega hringt viðvörunarbjöllum, en engar heimildir séu til þess að hafa með þeim eftirlit eftir að þeir eru komnir aftur út í samfélagið. Allir hafa mennirnir hlotið dóma fyrir brot sín, sumir þeirra margoft.

Bragi segir að til séu þekktar aðferðir til að leggja mat á brotamenn af þessu tagi til að greina hvort þeir séu líklegir til að brjóta af sér á nýjan leik. „Þær byggja á þekkingu manna á þeim einstaklingum sem haldnir eru barnagirnd. Þeir sýna ákveðna hegðun, hafa tiltekin sjónarmið og þetta er allt hægt að mæla. Mælingarnar hafa forspárgildi,“ segir Bragi og segir aðferðir af þessu tagi notaðar víða erlendis og að þær hafi gefið góða raun.

Ekki skylt að taka þátt í meðferð

Hann segir nauðsynlegt að dæmdum kynferðisbrotamönnum sé boðið upp á lyfja- og /eða atferlismeðferð. Þeim sé þó ekki skylt að taka þátt í slíkri meðferð og nokkrir þeirra 5-10 kynferðisbrotamanna hér á landi, sem taldir eru með barnagirnd á háu stigi, hafa neitað að undirgangast slíka meðferð.

Hringir það ekki einhverjum viðvörunarbjöllum þegar menn neita slíkri meðferð?
„Jú, því að það hefur sýnt sig að þeir sem ekki vilja gangast við brotum sínum og leita sér þeirrar meðferðar sem boðið er upp á eru hættulegastir. Vandinn snýst því um þá sem ekki vilja meðferðir. En það er í rauninni ekki hægt að nálgast þessa einstaklinga eftir að þeir hafa lokið afplánun sinni.“

Nauðsynleg umræða

Áður hefur komið fram í fréttum mbl.is að Bragi telur nauðsynlegt að ákvæði verði sett í barnaverndarlög sem veiti ríkari heimildir til eftirlits með kynferðisbrotamönnum. Hann lagði til fyrir nokkru síðan að gerðar yrðu breytingar á barnaverndarlögum að þessu leyti.

„Mér finnst rétt að þessi umræða sé tekin, það þarf að fara yfir þessi mál. Þetta er hegðun sem samfélagið mun aldrei nokkurn tímann sætta sig við,“ segir Bragi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert