„Enn hálf óraunverulegt“

Tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir verk sitt, Dreymi. Verðlaunin eru veitt árlega þeim sem þykja skara fram úr á sviði tónsmíða- og flutnings á Norðurlöndunum og er Anna fimmti Íslendingurinn sem hlýtur þennan heiður frá upphafi.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Anna náð gríðarlegum árangri á sínu sviði, en hún er með doktorsgráðu í tónsmíðum frá Kaliforníuháskóla í San Diego og gaf út sína fyrstu sólóplötu í október á síðasta ári, en platan nefnist Rhízōma. Hún hlaut tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2012 sem tónhöfundur ársins og fyrir hljómplötu ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar. Verk hennar, Aeriality, hlaut einnig tilnefningu sem tónverk ársins.

Mikill heiður

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent Önnu á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í byrjun nóvember. Hún segir verðlaun af þessum toga hafa mikla þýðingu, ,,þetta er auðvitað gríðarleg viðurkenning og mikill heiður, og ég tala nú ekki um hvatningu sérstaklega miðað við alla þá sem hafa verið tilnefndir og fengið verðlaunin áður. Þetta er enn hálf óraunverulegt, finnst mér,“ segir Anna og bætir við að ekki peningagjöfin sem fylgir verðlaununum gagnist til að geta lifað af listinni. 

Aðspurð hvenær hún hafi byrjað að semja tónlist segir Anna það hafa verið snemma, „það má segja að ég hafi verið að gera tónlist frá því að ég man eftir mér, en ég byrjaði að skrifa tónlist um 19, 20 ára aldurinn. Ég fór svo í Listaháskólann árið 2001 og hef ekki hætt að skrifa tónlist síðan, það einhvern veginn yfirtók líf mitt,“ segir Anna, sem er 34 ára gömul.

Notar myndir til að muna

Anna vinnur verk sín á óhefðbundin hátt ,,Það er oft mjög langt ferli og grunnvinnan er oft mjög myndræn vegna þess að ég þarf leið til að muna tónlistina svo maður sé ekki með höfuðið alltaf á fullu. Hugmyndirnar kvikna og maður heyrir verkið fyrir sér og þá þarf maður að finna leið til þess að halda í minninguna og þá teikna ég oft myndir fyrir mig sjálfa sem leið til að muna áður en ég get svo skrifað verkið á nótur vegna þess að ég get ekki skrifað jafn hratt og ég hugsa. Þannig kemur grafíkin inn í en hún hefur í raun enga tengingu við tónlistina sem slíka þegar verkið er tilbúið.“

Anna blandar mismunandi tónlistategundum í sínum tónsmíðum, en hún hefur meðal annars fléttað raftónlist saman við nútímatónlist  „tónlistin kemur öll af sama brunni og maður er alltaf að vinna með tónlistina og svo velur maður sér bara miðil eftir því sem hentar hverri tónlist fyrir sig. Sum tónlist sem verður til í höfðinu á manni veit maður einfaldlega að hentar best að koma til skila með rafhljóðum, og annað með hljómsveit og enn annað með einleik. Það er gaman að vera með mismunandi hljóðfæraskipan, en allt er þetta þó skrifuð tónlist á blað og sett á nótur,“ segir Anna.

Anna mun hafa nóg fyrir stafni á næstu mánuðum, en hún vinnur að nokkrum verkefnum í augnablikinu, meðal annars að skori fyrir kvikmynd sem Marteinn Þórsson leikstýrir og skrifar handritið að. „svo er ég að vinna verk fyrir hljómsveit og kór fyrir tónlistarhátíð á Ítalíu.“

Tónlist Önnu má nálgast í innlendum plötuverslunum, á iTunes og einnig á vefsíðu hennar.

Vefsíða Önnu

mbl.is