Mannréttindanefnd SÞ lokar máli gegn stjórnvöldum

Mannréttindanefnd SÞ lagði þá skyldu á herðar íslenska ríkinu að …
Mannréttindanefnd SÞ lagði þá skyldu á herðar íslenska ríkinu að greiða málskotsaðilum fullnægjandi bætur og endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið. mbl.is/RAX

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ákveðið að loka máli tveggja sjómanna gegn íslenskum stjórnvöldum þar sem stjórnvöld hafi brugðist við tilmælum nefndarinnar með ásættanlegum hætti að hluta til. Málið snýst um það hvort stjórnvöld hafi gerst brotleg við Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytinu segir að stjórnvöldum hafi borist orðsending frá Mannréttindafulltrúa SÞ um málið í gær.

Fram kemur að hinn 15. september 2003 hafi þeir Erlingur Sveinn Haraldsson og Örn Snævar Sveinsson farið þess á leit við Mannréttindanefnd SÞ að hún kannaði á grundvelli viðbótarbókunar við Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hvort íslensk stjórnvöld hefðu gerst brotleg við 26. gr. samningsins.

Greinin kveður á um að allir skulu jafnir fyrir lögum og eigi rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Kváðust þeir vera lagalega skyldir til að greiða fé til forréttindahóps samborgara sinna til að geta stundað þá atvinnu sem þeir kysu, þ.e. fengju ekki úthlutuðum kvóta til fiskveiða heldur þyrftu að leigja eða kaupa hann á markaði. Í samræmi við meginreglur atvinnufrelsis og jafnréttis vildu þeir fá tækifæri til að stunda þá atvinnu að eigin vali án þess að þurfa að yfirstíga hömlur sem fælust í forréttindum fyrir aðra.

„Nefndin fjallaði um málið í október 2007 og taldi meirihluti hennar meginálitaefnið vera hvort kærendur skyldu lögum samkvæmt skyldaðir til að greiða samborgurum sínum fé til að afla sér fiskveiðiheimilda sem væru nauðsynlegar til að eiga kost á að veiða í atvinnuskyni kvótasettar fisktegundir í eigu íslensku þjóðarinnar. Lagði nefndin þá skyldu á herðar íslenska ríkinu að greiða málskotsaðilum fullnægjandi bætur og endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið.

Hinn 6. júní 2008 gerðu íslensk stjórnvöld grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Í bréfi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einars K. Guðfinnssonar til nefndarinnar kom m.a. fram að íslensk stjórnvöld teldu sig ekki vera í stöðu til að greiða bætur til mannanna né heldur að breyta fiskveiðistjórnunarkefinu umsvifalaust, en boðað var að tilmæli nefndarinnar yrðu höfð til hliðsjónar við heildstæða endurskoðun fiskveiðikerfisins. Í febrúar 2009 áréttaði sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ákveðið hefði verið að styrkja mannréttindaþátt stjórnarskrárinnar og festa í sessi að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar en tók að öðru leyti undir fyrri afstöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina