Sjáanlegur munur á líðan

Tysabri hefur verið algjör bylting fyrir marga MS-sjúklinga.
Tysabri hefur verið algjör bylting fyrir marga MS-sjúklinga. mbl.is/Golli

Hópur MS-sjúklinga hefur verið án lyfja um allt að fjögurra til fimm mánaða skeið. Öflugasta lyfið sem er í notkun hér á landi, tysabri, getur haft lífshættulegar aukaverkanir í för með sér fyrir þennan hóp en hann fær ekki nýtt lyf sem til stóð að setja hann á þar sem Sjúkratryggingar taka ekki inn ný lyf eins og er.

„Það er sjáanlegur munur á bæði andlegri og líkamlegri líðan þeirra. Þeir sem eru búnir að vera lengst án lyfja hafa verið það í 4-5 mánuði. Það er langur tími fyrir fólk því fólk sem er á tysabri er með hraðan sjúkdóm. Að vera án lyfja hefur áhrif en fólk var tilbúið að gera það í þrjá mánuði til að fara á nýtt lyf sem tryggir öryggi þess,“ segir Bergþóra Bergsdóttir, stjórnarmaður í MS-félagi Íslands. Félagið sendi heilbrigðisyfirvöldum og tveimur nefndum Alþingis bréf vegna málsins fyrir helgi en hefur engin viðbrögð fengið.

Bergþóra segir að það sé áríðandi fyrir þennan hóp að fá lyfið sem fyrst því að afleiðingarnar geta verið varanlegar. „Þetta má ekki dragast. Eftir því sem lengra líður þeim mun meiri verður fötlunin. Þegar fólk er komið á ákveðið stig kemur getan ekki til baka og fötlunin verður varanleg. Þess vegna er svo mikið í húfi að fólk haldi lífsgæðum sem það þegar hefur.“

Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að MS-lyfið tysabri, sem hefur verið í notkun á Íslandi frá árinu 2008, sé besta sjúkdómshamlandi lyfið á markaðnum. Fimm til tuttugu íslenskir MS-sjúklingar teljast hins vegar í sérstökum áhættuhópi fyrir hættulegar aukverkanir og hefur einn sjúklingur þegar látist af völdum aukaverkana á Íslandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: