10 þúsund störf í hættu

mbl.is/Helgi Bjarnason

Á fundi sem haldinn var hjá SFÚ, Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, var frumvarp ríkisstjórnar um stjórn fiskveiða harðlega gagnrýnt. Segja samtökin ljóst að verði frumvarpið samþykkt í óbreyttri mynd munu fiskmarkaðir leggjast af og gætu því tíu þúsund manns misst vinnuna sé tekið tillit til afleiddra starfa í fiskvinnslu.

„Krafa okkar í SFÚ er tvíþætt: Að fá fisk inn á fiskmarkaðina, m.ö.o. að skylda útgerðina til þess að landa ákveðnu hlutfalli, helst öllum fiski inn á íslenska fiskmarkaði,“ segir ,Gunnar Örlygsson, hjá AG Seafood í Reykjanesbæ. Hann segir kröfu þessa vera tilkomna vegna Verðlagsstofu skiptaverðs en hún tryggir útgerðarmönnum hráefnum til vinnslu á allt að 30-40% lægra verði en þekkist hjá vinnslum sem starfa án útgerðar.

„Það er með ólíkindum að hið opinbera skuli samþykkja þetta fyrirkomulag [...] í skjóli opinberra laga þrífst alvarleg samkeppnismismunun í fiskvinnslu á Íslandi.“

Hin krafa SFÚ er sú að óskað er eftir því að hinn svokallaði gámafiskur, óunnið hráefni sem sett er í gáma og flutt á erlenda markaði, fari fyrst inn á íslenska fiskmarkaði svo íslensk fiskvinnsla fái að bjóða í íslenskan fisk í samkeppni við erlenda jafnt sem innlenda kaupendur sem vilja kaupa fisk á opnum markaði.

Þurrkar út fiskmarkaði

Hjá aðildarfyrirtækjum SFÚ starfa 2500 manns en með afleiddum störfum allt að 10 þúsund manns. SFÚ segir ljóst að verði frumvarp um stjórn fiskveiða samþykkt í óbreyttri mynd mun það ganga af fiskmörkuðum dauðum og þessi störf tapast.

Ólafur Arnarson hagfræðingur hélt ávarp á fundinum og benti á að í frumvarpi ríkisstjórnar væri jafnfrétti á markaði ekki virkt. „Sjálfstæðir fiskverkendur eru ekki að reyna að skipta sér af veiðigjaldinu eða því hver fær að veiða fiskinn. Það sem að snýr að sjálfstæðum fiskverkendum er að jafnrétti sé á markaði og öllum gefist kostur á að vinna þennan fisk. Það er pottur brotinn í þessu frumvarpi,“ sagði Ólafur.

Hann benti á þá staðreynd að fleiri skapi störf í sjávarútvegi en útgerðin. „Þó umræðan og auglýsingaherferðin síðustu vikna gefi það til kynna að það sé bara útgerðin sem skapar störf í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Ólafur og bendir á að hjá fyrirtækjum sem eru innan vébanda SFÚ starfa 2500 manns og 10.000 störf í heildina í tengslum við landvinnslu.

Ekki eitt orð um fiskmarkaði

SFÚ bendir á að í frumvarpi ríkisstjórnar er ekki einu orði minnst á fiskmarkaði. Hverfi fiskmarkaðir á Íslandi eiga sjálfstæðir fiskverkendur enga framtíð. „Hvernig eiga byggðarlög eins og t.a.m. Bakkafjörður, Þorlákshöfn, Sandgerði og fl. að bregðast við þessu? Í mörgum þessara byggðarlaga þá eru sjálfstæðir fiskverkendur bakbein atvinnustarfseminnar og þar með byggðarinnar,“ segir Ólafur og bætir við þeirri spurningu hvort það vanti fleira fólk á atvinnuleysisskrá hér á landi?

Ólafur segir hvergi vera tekið á því að tryggja jafnrétti í vinnslu. Samkeppniseftirlitið hefur til umfjöllunar erindi frá SFÚ, sem sent var inn í maí 2011, vegna þessara mála og það er enn óafgreitt þrátt fyrir ítrekanir SFÚ.

SFÚ telur að lög um fiskveiðistjórnun (116/2006) og um verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna (13/1998) vegi beint og óbeint að stjórnarskrárvörðum rétti félagsmanna um jafnræði og atvinnufrelsi ásamt því að leiða til óeðlilegrar samkeppnismismunar í fiskvinnslu.

„Þessi brot á jafnræðisreglunni leiðir til samkeppnismismununar,“ segir Ólafur.

Gagnrýna LÍÚ

Jón Steinn Elíasson, formaður SFÚ, sagði aðgerðir LÍÚ vera grafalvarlegar. „Við höfum verið að reyna að þjónusta okkar brýnustu viðskiptavinum og eina hráefnið sem við höfum haft til þess eru strandveiðarnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert