„Ég er mjög heppin kona að vera hér“

Elizabeth liggur á Landspítalanum. Hún segist ekki orðin afhuga Íslandi …
Elizabeth liggur á Landspítalanum. Hún segist ekki orðin afhuga Íslandi þrátt fyrir slysið. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef haft það betra!“ segir Elisabeth Gluyas, breska konan sem slasaðist illa þegar hún féll niður í gil við fossinn Gljúfrabúa á öðrum degi hvítasunnu, þegar blaðamaður spyr hvernig henni líði þar sem hún liggur í sjúkrarúmi á Landspítalanum í Fossvogi öll samanskrúfuð.

„En ég er mjög heppin kona að vera hér,“ bætir hún við.

Talið er að Elisabeth hafi hrapað um fimm eða sex metra niður og brotnaði hún við það á fótum, öxl, mjöðm og úlnlið. Auk þess féllu lungun í henni saman við höggið. Sjálf segist hún þó ekkert muna eftir slysinu.

Rankaði við sér á fimmtudegi

Fossinn Gljúfrabúi er við bæinn Hamragarða nærri Seljalandsfossi og þurfa þeir sem vilja skoða hann að gægjast inn í gljúfrið til að sjá hann betur.

„Ég man eftir að ég gekk að fossinum og aftur til baka því að það var fólk að bíða. Eftir það man ég ekki eftir neinu,“ segir Elisabeth um slysið. Ferðafélagar hennar hafi lýst því þannig að eina stundina hafi hún verið við hlið þeirra en þá næstu hafi hún verið horfin. „Enginn þeirra sá hvað gerðist í raun,“ segir hún.

Björgunarsveitarmenn af Hvolsvelli björguðu Elisabeth upp og var hún flutt með þyrlu á Landspítalann. Þar lá hún á gjörgæslu fyrstu dagana eftir slysið. Það var svo ekki fyrr en á fimmtudeginum eftir slysið sem hún komst aftur til meðvitundar.

„Ég sá flísarnar í loftinu en hafði ekki hugmynd um hvar ég var eða hvað gengi á. Það var mjög óraunverulegt,“ segir hún um það þegar hún rankaði aftur við sér.

Elisabeth liggur nú á bæklunardeild Landspítalans og bíður þess að vera flutt með flugi heim til Leicester á Englandi. Það gæti jafnvel gerst í lok þessarar viku. Hún þarf þó að vera með skrúfur í mjöðm og úlnlið í sex vikur.

Allir reynst henni vel

Elisabeth segir alla, björgunarsveitar-, sjúkraflutningamenn og starfsfólk sjúkrahússins, hafa reynst sér afar vel. „Starfsfólkið hér er frábært,“ segir Elisabeth sem er létt í lund þrátt fyrir hrakfarirnar.

„Ég er ekkert orðin afhuga Íslandi þrátt fyrir þetta. Landið er mjög fallegt,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert