100 hjól á uppboði

100 hjól verða boðin upp á árlegu reiðhjólauppboði lögreglunnar.
100 hjól verða boðin upp á árlegu reiðhjólauppboði lögreglunnar. mbl.is/Golli

Rúmlega 100 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á morgun. Um að ræða reiðhjól sem hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hefur hirt um að sækja. 

Samkvæmt upplýsingum af vef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru tilkynningar um stolin reiðhjól tæplega 650 talsins á síðasta ári. Aðeins hluti hjólanna berst til óskilamunadeildarinnar og óljóst hvað verður um meirihluta þeirra. Algengt er að hjól berist til deildarinnar mörgum mánuðum eftir að þeim var stolið. Þannig nægir eigendum sjaldnast að að koma til lögreglu strax eftir þjófnaðinn, heldur verður að sýna þrautseigju og vitja þeirra reglulega í vikur og mánuði eftir að hjólinu var stolið.

Lögreglan vill að gefnu tilefni benda lesendum á mikilvægi þess að geyma reiðhjól á eins öruggum stað og unnt er og alls ekki skilja þau eftir ólæst. Ef illa fer, og hjóli er stolið, getur komið sér vel ef eigandinn hefur raðnúmer (stellnúmer) þess tiltækt. Það auðveldar lögreglu að koma því til skila ef það á annað borð kemur í óskilamunadeild hennar.

Uppboðið fer fram í húsnæði Vöku í Skútuvogi 8 í Reykjavík og hefst það kl. 13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert