Virðist ekki sýna neina eftirsjá

Handjárnin losuð af Guðgeiri Guðmudssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Handjárnin losuð af Guðgeiri Guðmudssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is

Sálfræðingur sem vann mat á Guðgeiri Guðmundssyni, sem játað hefur að hafa ráðist inn á lögmannsstofu og veist að Skúla Eggert Sigurz með hnífi, sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, að hann virðist ekki sjá eftir árásinni. Hann sagðist jafnframt telja að Guðgeir geti verið hættulegur öðrum.

Guðgeiri var lýst af Brynjari Emilssyni sálfræðingi sem manni sem hefur lítil samskipti við annað fólk og vilji ekki eiga í samskiptum við aðra. Hann hafi verið reiður frá því hann var lagður í einelti í barnaskóla, sé raunar með langvarandi bælda reiði. Hans viðhorf til annars fólks er að því sé ekki treystandi, hann hleypir fólki ekki að sér og sýnir afar litlar tilfinningar.

Saksóknari spurði Brynjar út í eftirsjána, en fyrir dómi í morgun sagðist Guðgeir sjá eftir því að hafa ráðist á Skúla, enda sé það ekki eitthvað sem menn geri. Brynjar sagði að í viðtölum við Guðgeir hafi komið fram að hann sjái eftir því að hafa ekki hugsað málið til enda. Hann sjái mest eftir því að hafa tekið myntkörfulán sem hafi að endanum leitt hann á lögmannstofuna. Hann virðist hins vegar ekki sjá eftir brotinu og réttlæti það út frá stöðu Skúla Eggerts, þ.e. að Guðgeir hélt að hann væri lögfræðingur. „Mér fannst hann raunverulega ekki sjá eftir þessu, en meira eftir einhverju í fortíðinni.“

Hvað lögfræðinga varðar sagði Brynjar að Guðgeir hafi einhæfa og öfgakennda skoðun á lögfræðingum. Hann telji að hægt sé að alhæfa um stéttina í heild og ekkert gott sé um hana að segja.

Einelti og fjölskylduerfiðleikar

Komið hefur fram að Guðgeir varð fyrir miklu einelti frá 2. til 9. bekk í grunnskóla, og kom fram í máli hans í morgun að aðallega hafi verið um einn geranda að ræða. Um áhrif eineltisins sagði Brynjar að þau væru vissulega einhver, einelti hafi áhrif á alla þá sem í því lenda. Þar sem ekki er vitað hvernig persónugerð hans var fyrir eineltið er erfitt að segja til um áhrif þess á hana.

Þá hafi hann lýst fjölskylduerfiðleikum, að hann hafi verið útundan í fjölskyldunni. Þetta allt hafi haft þau áhrif að hann sé kaldlyndur, treystir engum og í honum blundi langvarandi reiði sem ekki hafi verið unnið úr.

Brynjar sagði að á meðan Guðgeir vinnur ekki úr sínum málum geti hann verið hættulegur. Hann hafi til dæmis lýst því í viðtölum að ef einhver hóti fjölskyldu hans kvikni hefndarþorstinn.

Manneskja og lögfræðingur

Verjandi Guðgeirs spurði nánar út í eftirsjá hans og benti á að í matinu komi fram að hann segist sjá eftir að hafa ráðist á manneskju, sem ekki hafi verðskuldað það, og voni að hann nái sér.

Brynjar sagði þetta rétt en Guðgeir reyni að útskýra gjörðir sínar annars vegar út frá manneskju og hins vegar lögfræðingi. Hann sjái eftir að hafa ráðist á manneskju en ekki lögfræðing. Það sé meira prinsippmál hjá honum, því hann viti að ekki eigi að ráðast á fólk. Það sé því ekki eiginleg eftirsjá og hann sjái ekki eftir árás á lögfræðing.

Geðrænn vandi en ekki sjúkdómur

Einnig kom fyrir dóminn Sigurður Páll Pálsson geðlæknir. Hann sagði Guðgeir haldinn ákveðnum vanda, geðrænum vanda, en hann sé ekki með geðsjúkdóm. Hann sé einfari sem trúi ekki á samskipti manna, en slíkir menn eigi það til að bregðast illa við óréttlæti. Það liggi að baki atburðarásinni enda taldi hann sig beittan óréttlæti. Hann fái innheimtubréf sem verði að meiriháttar krísu, fyrst sjálfsvígskrísu sem breytist í þessa miklu reiði.

Sigurður sagði einnig að eftirsjá Guðgeirs væri ekki djúp en hann sé frekar undrandi á sér að hafa brugðist svona við. Enginn vafi sé á að Guðgeir sé sakhæfur og sagði Sigurður að hann hafi alla möguleika á að bæta sig fái hann meðferð.

Dómari spurði þá hvort Guðgeir væri hættulegur. Sigurður sagði hann ekki hættulegan en við ákveðnar aðstæður geti brotist út þessi mikla reiði.

mbl.is